RÚV getur ekki sýnt Hákon beint á ÓL

Hákon Þór Svavarsson skotíþróttamaður, keppir í haglabyssuskotfimi á Ólympíuleikunum í …
Hákon Þór Svavarsson skotíþróttamaður, keppir í haglabyssuskotfimi á Ólympíuleikunum í París. mbl.is/Kristinn Magnússon

RÚV getur ekki sýnt beint frá því þegar Hákon Þór Svavarsson skotíþróttamaður, keppir í haglabyssuskotfimi á Ólympíuleikunum í París á föstudag og laugardag.

Þetta segir Hilmar Björnsson, íþróttastjóri á RÚV, í samtali við mbl.is.

Keppnin ekki framleidd fyrir sjónvarp

„Keppnin hans Hákonar er ekki framleidd fyrir sjónvarp og þess vegna getur RÚV ekki sýnt beint frá henni, en RÚV mun vera á staðnum til að taka upp það helsta og heyra frá honum. Ef hann fer í úrslit þá sýnir RÚV það að sjálfsögðu í beinni ef það stendur til boða,“ segir Hilmar. 

Hann segir að Ólympíuleikarnir sendi suma undanriðla ekki beint út og sjónvarpsstöðvum standi því ekki til boða að senda þær keppnir beint út. Keppnin hans Hákonar sé ein af þeim.

Taka keppnina upp og sýna eftir á

„Við verðum hins vegar með mann á staðnum sem mun taka upp skotkeppnina hjá Hákoni og taka viðtal við hann. Við ætlum að sjá hvort við getum tekið á móti því og jafnvel sýnt það þá aðeins eftir á,“ segir Hilmar.

„Við að sjálfsögðu sýnum frá öllum Íslendingum eins og við getum en því miður með þessa grein þá er hún ekki framleidd fyrir sjónvarp og við getum ekkert gert í því,“ segir hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert