Setja upp tjaldsúlur í úrhelli og „suðaustanógeði“

Heimamenn létu úrhellið ekki stöðva undirbúninginn.
Heimamenn létu úrhellið ekki stöðva undirbúninginn. mbl.is/Óskar

Gengið hefur á ýmsu við und­ir­bún­ing stærstu útihátíðar landsins sem halda á í Herjólfsdal um helgina. 

Veðrið hefur leikið Vestmannaeyinga grátt en í dag settu heimamenn upp tjaldsúlur fyrir hvítu hústjöldin frægu, sem hafa aldrei verið fleiri.

„Það gerðum við í rjómablíðunni í suðaustanógeði og úrhellisrigningu,“ segir handknattleiksmaðurinn Kári Kristján Kristjánsson í samtali við mbl.is en hann kveðst taka þátt í undirbúningnum á hverju ári. 

Hvassviðri er þegar byrjað að segja til sín og hafa ein­hver þjón­ustutjöld á svæðinu fokið til.

Lagðist veðrið ekkert ekkert illa í mannskapinn?

„Nei nei, það er 21. öldin – 2024 – og það er til nóg af fötum til að klæða sig í. Þannig að þetta getur ekki verið vandamál,“ segir Kári Kristján sem var þó klæddur í stuttbuxur.

Nökkvi Snær Óðinsson, handknattleiksmaður og lögregluþjónn, og Kári Kristján Kristjánsson …
Nökkvi Snær Óðinsson, handknattleiksmaður og lögregluþjónn, og Kári Kristján Kristjánsson handknattleiksmaður.

Súlur týnst, röngu tjaldi tjaldað og hitt tjaldið fauk

Vegna veðurs hefur undirbúningurinn ekki gengið eins smurt fyrir sig og óskandi væri, en nú er þó búið að setja upp flest tjöld í dalnum.

Það vildi samt svo óheppilega til að þrjár mikilvægrar súlur týndust í dag, svokallaðar langsúlur, þegar setja átti upp súlur undir hústjöldin. Þær fundust þó á endanum.

„Pabbi minn kom með súlurnar á kerrunni. En kom svo í ljós að þegar við vorum að byrja að setja súlurnar upp að það vantaði þrjár langsúlur, sem hann hafði misst af kerrunni og þurfti að labba um allan bæ til að leita að þessum súlum,“ segir Kári Kristján.

Hvítu tjöldin hafa aldrei verið fleiri en í ár. Í …
Hvítu tjöldin hafa aldrei verið fleiri en í ár. Í raun virðist met slegið á nær hverju ári. mbl.is/Óskar

„En hann fann þær!“ bætir hann fagnandi við. „Svo við náðum að græja þetta.“

Þá nefnir Kári einnig að röngu samkomutjaldi hafi verið tjaldað á einum stað á mánudag. Tvær klukkustundir höfðu farið í að reisa tjaldið áður en mistökin urðu ljós. 

„En svo þurftum að taka það niður og setja upp nýtt tjald sem fauk svo í gærnótt,“ segir hann. „Og við þurfum að tjalda því aftur á morgun.“

Aldrei verið mörg af hústjöld

Tjaldsúlurnar eru nú flestar komnar upp og á morgun verða segl lögð yfir þær, að sögn Kára.

Reyndar eru ekki allar tjaldsúlur komnar upp og er í raun lítið pláss eftir að sögn Kára, sem bætir við að tjöldunum verði þó troðið enhvers staðar inn á milli.

„Það hefur aldrei verið jafn mikið af Hvítum tjöldum,“ segir hann og vitnar í viðtal Eyjafrétta við framkvæmdastjóra ÍBV sem sagði að skipuleggjendur hátíðarinnar hefðu þurft að finna auka pláss á svæðinu fyrir hvítu hústjöldin.

„Ég myndi hvetja fólk til þess að koma á endann á Sjómannasundi, svo að ég verði ekki endatjaldið,“ bætir Kári við. „Ég nenni því ekki.“

Brennan sé ungs manns gaman

Kári, sem er Eyjamaður í húð og hár, kveðst taka þátt í undirbúningi hátíðarinnar á hverju ári.

„Ég er náttúrulega enn þá rígfullorðinn maður í handboltasprikli og við tökum svona fasta liði,“ segir handboltastjarnan.

Hann segist aftur á móti mega vera aðeins duglegri undanfarin ár að mæta í brennuna sem haldin er á föstudagskvöldinu. Hann tekur þó fram að brennan sé ætluð unga fólkinu „Young man’s game,“ slettir Kári.

En ég geri ráð fyrir að þú sért spenntur fyrir Þjóðhátíð eins og flestir, ekki satt?

„Það er reyndar ekki mikið á þjóðhátíðartanknum hjá mér í ár,“ svarar hann og hlær við.

„Það getur vel verið að eftir fyrstu umferðina í Skransjoppunni að það komi andi yfir mann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert