Telur bændurna hafa rétt fyrir sér

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík.
Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef það hefði verið gert þá, þá kannski væri allt gott núna en sú ákvörðun var ekki tekin af mér. Það voru einhverjir sem ákváðu að gera það ekki,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, um framkvæmdir sem bændur í Álftaveri vildu fá þegar Leirá breytti um farveg fyrir hartnær þrjátíu árum síðan.

Telja bændurnir og Ágúst að skaði jökulhlaupsins á laugardag hefði verið minni hefði hlaupið fylgt upprunalegum farvegi árinnar.

Í viðtali við mbl.is í gær sagði Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfs­stöðum og odd­viti í Skaft­ár­hreppi, að leitað hafi verið á náðir stofnanna landsins, nánar tiltekið Vegagerðina og Landgræðslu, þegar breytingar urðu á farvegi Leirár og hún tók að færa sig ofan í Skálmina.

„Sú breyt­ing sem varð á Lei­rá á þeim tíma, hún verður þess vald­andi að hlaupið kem­ur niður í Skálm. Hlaupið sjálft kem­ur eft­ir far­vergi Lei­rár und­an jökli. Hefði hún verið við sinn venju­bundna far­veg þá hefði þetta ekki náð niður í Skálm held­ur upp í Hólmsá og þaðan í Kúðafljót,“ sagði Jóhannes í samtali við blaðamann í gær.

Ákvörðun tekin að aðhafast ekki í ánni

Í samtali við mbl.is segir Águst að líklega sé þetta rétt hjá bóndanum.

„Ég veit það að ef þetta hefði farið í Hólmsá hefði verið minni skaði. Það er miklu stærri brú þar,“ segir Ágúst og bætir við.

„Þetta er einhver upplifun sem þeir hafa í áratugi haft.“

Minnist yfirverkstjórinn að umræður hafi verið á borði fyrir einhverjum árum.

„Það höfðu verið umræður og þá var farið í einhverja skýrslugerð. Minnir eins og Magnús Tumi [Guðmundsson jarðfræðingur] og þeir hafi verið í því. Eitthvað var það sem þeir ákváðu sem ég veit ekki alveg hvað var.“

Segir Águst að erfitt væri að fara í framkvæmdirnar í dag. Hefði það öllu heldur þurft að gerast fyrir um 20-30 árum. Segir hann þó að mikilvægasta í stöðunni í dag sé að einbeita sér að hvað sé hægt að gera núna.

„Það er hvað getum við gert núna sem ég vill finna út úr og sem að skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka