Eitt stærsta Kötlugos frá því land byggðist hófst 12. október það skaðræðisár 1918 þegar frostaveturinn mikli og spænska veikin lögðust á landann auk gossins. Morgunblaðið greindi ítarlega frá hamförunum sem ægilegastar urðu á Hjörleifshöfða samkvæmt því sem greindi í mánudagsblaði sem hálft var lagt undir gosið – en blaðið var raunar aðeins fjórar síður í heildina.
„Ægilegastar hafa þessar hamfarir náttúrunnar orðið á Hjörleifshöfða,“ segir í ítarlegri umfjöllun Morgunblaðsins mánudaginn 14. október 1918 um eldgosið í Kötlu sem þá hafði hafist tveimur dögum áður, laust fyrir klukkan þrjú síðdegis laugardaginn tólfta og var þar talið um eitt stærsta Kötlugos að ræða frá landnámi.
Viðbúnaður var þegar sem mestur mátti vera á mælikvarða ársins 2018 eins og Morgunblaðið lýsir:
„Þegar er fyrst varð vart við eldgosið í Vík í Mýrdal, voru verðir settir í öll skörð og á alla hnúka þar umhverfis til þess að þegar fengjust fregnir um það, ef einhver veruleg hætta væri á ferðum. Eftir frásögu þessara varðmanna varð fyrsta jökulhlaupið allmikið,“ segir í upphafi umfjöllunar Morgunblaðsins þennan mánudaginn um stóratburði helgarinnar en gosið hófst í inflúensufaraldrinum spænsku veikinni miðjum.
Þá færði blaðamaður fregnir af hugsanlegum mannaferðum á söndunum austan Múlakvíslar og sló því föstu að engar sannar fregnir hefðu menn fengið af því, að ferðamenn hefðu verið á söndunum. Tveir menn frá Ásum í Skaftártungu voru sagðir hafa komist yfir kvíslina áður en hlaupið náði þangað og skiluðu þeir sér til Víkur heilu og höldnu. Ekki töldu þeir að nokkrir aðrir hefðu fylgt á eftir þeim.
Þá var vikið að öryggismálum í Vík í Mýrdal, helsta þéttbýli hættusvæðisins.
„Kaupstaðnum í Vík, er eigi hætta búin af öðru en flóði, ef stór hlaup skyldi koma úr jöklinum. En það getur komið á hverri stundu. Á Víkursandi hafa verið reist nokkur nýbýli á undanförnum árum og standa þau svo lágt, að sjálf sjávarströndin er hærri. Hefir það komið fyrir í miklum brimum að sjór hefir gengið yfir fremsta hávaðann og þá komið hlaup á þessi býli og kjallarar fylzt af sjó. Komi því mikil flóðbylgja, eru flest eða öll býli þessi í hættu.“
Annað var ótækt en að gefa stutt yfirlit um hvernig íbúar í öðrum landshlutum hefðu upplifað ósköpin, jafnvel hinum megin á landinu og grípur blaðamaður fyrst niður á Hólmavík.
„Eldblossar meiri og minni sáust héðan í suðaustri í alt gærkvöld. Dynkir heyrðust og allmiklir í alla nótt og í morgun, en titring hafa menn eigi orðið varir við,“ sögðu íbúar Hólmavíkur frá.
„Fréttaritari vor í Vestmannaeyjum símaði oss í gær,“ segir því næst frá í landshlutaumfjölluninni og er þar haft eftir fréttaritaranum að gosið hafi sést mjög greinilega úr Eyjum og glæringarnar verið svo miklar, að albjart hafi verið þau augnablikin í Eyjunum sem fengu svo að reyna eigin hamfarir af sama tagi rúmri hálfri öld síðar.
„Frá Garðsauka var símað í gær kl. 6, að öskufallið væri töluvert að minka. Það var svo bjart kl. 4, að menn gátu slökt lampaljósin, sem logað höfðu allan daginn vegna ösku-myrkurs,“ segir í næstu landshlutaskýrslu.
Þá var að lokum vikið að farþegum og áhöfn gufuskipsins e/s Sterling sem var farþegaskip fyrir allt að 86 manns og hafði árið fyrir gosið, 1917, orðið fyrsta strandferðaskip íslenska ríkisins. Sterling var á siglingu fyrir Vestfjörðum en sást þó eldurinn úr Kötlu greinilega um borð. „Að öllum líkindum hafa glæringarnar sést víðast hvar á landinu,“ segir að lokum áður en blaðamaður víkur sér í umfjöllun um fyrri Kötlugos á sögulegum tíma.