Þyrlur í Reykjavík og á Akureyri um helgina

Áhöfn verður einnig til taks á varðskipinu Freyju.
Áhöfn verður einnig til taks á varðskipinu Freyju. mbl.is/Árni Sæberg

Þyrlur Landhelgisgæslunnar verða staðsettar á Akureyri og í Reykjavík um verslunarmannahelgina. Þetta er gert til þess að stytta viðbragðstíma gæslunnar. Einnig verður áhöfn í varðskipinu Freyju til taks. 

„Frá laugardeginum ætlum við að vera með aðra þyrluna staðsetta á Akureyri og þá hina í Reykjavík. Þetta var svona það sem að við vorum að prófa okkur áfram með í fyrra, þá vorum við með þyrlu í Vestmannaeyjum og síðan sömuleiðis á Fiskideginum í fyrra vorum við með þyrlu á Akureyri og þetta voru ráðstafanir sem að gengu mjög vel og hentuðu mjög vel.

Með þessu þá erum við að dreifa þyrlunum okkar á þá staði þar sem að er hægt að búast við því að það sé möguleg þörf á þyrlu. Þá erum við bara að stytta viðbragðstímann með þessu,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. 

Styttir viðbragðstíma

Spurður hvort að meira púður sé lagt í skipulag fyrir verslunarmannahelgina segir hann svo ekki vera fyrir utan staðsetningu þyrlu á Akureyri. Um hefðbundið viðbragð sé að ræða nema önnur áhöfnin sé fyrir norðan og hin fyrir sunnan. 

„Það styttir þá viðbragðstímann ef það þarf að sinna einhverju fyrir norðan og austan land að þá er auðvitað þyrlan sneggri frá Akureyri í slíkum tilfellum. Svo erum við með hina í Reykjavík til þess að bregðast fljótt við því sem að myndi þá gerast hérna á suðvesturhorninu, Suðurlandi og síðan Vesturlandi og Vestfjörðum. Það er svona hugsunin á bak við það.“

Þá segir Ásgeir það hafa sýnt sig í fyrra að viðbragðstími styttist umtalsvert þegar þyrlan var fyrir norðan. 

„Bæði varð umferðarslys rétt við Dalvík sem við gátum þá brugðist við með mjög skjótum hætti og sömuleiðis inni á hálendi, þá þurftum við að sinna þar útkalli. Þannig að sú ráðstöfun gekk mjög vel, að hafa þyrluna fyrir norðan yfir fiskidaginn í fyrra og að þeim sökum þá verðum við með hana núna fyrir norðan um verslunarmannahelgina,“ segir Ásgeir 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert