Þjóðhátíð í Eyjum fagnar 150 ára afmæli um helgina, en hún var haldin í fyrsta sinn árið 1874. Veðurspáin næstu daga er þó ekki sú besta, en hvassviðri er þegar byrjað að segja til sín og hafa einhver þjónustutjöld á svæðinu fokið til. Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, segir að verið sé að bíða þar til lægi til þess að laga tjöldin.
Jónas segir forsölu á hátíðina hafa verið góða og ef komi til hvassviðris um helgina eru þau með varaáætlun.
Jónas fylgist grannt með veðurspám fyrir helgina og segir þær ekki allar bera saman.
„Þá erum við með plan b að opna íþróttahúsið og knattspyrnuhöllina,“ segir Jónas spurður hvort að Þjóðhátíðarnefnd geti brugðist við mögulegu hvassviðri.
Langt er síðan að grípa þurfti til þess að bregðast við veðri með því að koma fólki fyrir innandyra að sögn Jónasar.
„Við höfum bara verið það heppin undanfarið að við höfum ekki þurft það lengi.“
Hann segir að eina í stöðunni sé að halda áfram undirbúningi hátíðarinnar og að vonast eftir betri veðurhorfum.
Í tilefni af eins og hálfrar aldar afmæli hátíðarinnar verða gamlar hefðir, sem legið hafa í dvala, endurvaktar segir Jónas.
Hann nefnir í því samhengi að á árum áður hafi floti vörubíla flutt fólk frá bænum í dalinn, en að það hafi verið bannað fyrir einhverjum árum.
Nefndin fékk í ár leyfi til þess að hafa einn vörubíl á svæðinu, en Jónas segir að hann verði frekar til skrauts heldur en til þess að ferja fólk á milli staða.
Hann nefnir einnig hefð brennukóngsins sem verður endurvakin í ár til að kveikja í brennunni.
Hann segir að forsala á hátíðina hafi verið góð og á par við fyrri ár: „Við eigum von á slatta af fólki og vonum að veður verði okkur hliðhollt.“