„Við bíðum alltaf eftir stórtjóninu“

Þorbjörn leitaði til Vegagerðarinnar í fyrra með ljósmyndir sem sýndu …
Þorbjörn leitaði til Vegagerðarinnar í fyrra með ljósmyndir sem sýndu hvernig áin flæddi. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

„Ég hef nú bara aldrei á ævinni séð eins mikið vatn koma í farveginn,“ segir Þorbjörn Jensson, fyrrum landsliðsþjálfari í handbolta, um jökulhlaupið í Skálm um helgina.

Þorbjörn, sem á sumarhús á slóðunum, telur hlaupið í Skálm eiga sér langan aðdraganda sem mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Leitaði til Vegagerðarinnar í fyrra

„Ég er búinn að vera þarna meira og minna síðastliðin 20 ár, eða svona annað slagið. Ég man eftir því að bændur fóru að segja mér frá því að þeir hefðu fengið Magnús Tuma Guðmundsson til að koma þarna einu sinni og bentu honum á að Leiráin myndi nú fyrir rest fara þarna í Skálmina. Hann taldi nú ekki svo vera. Þetta eru svo miklir snillingar. Svo bara einhverju seinna þá var áin búin að grafa sig yfir í Skálmina,“ segir Þorbjörn.

Segist Þorbjörn sjálfur hafa leitað til Vegagerðarinnar í fyrra með ljósmyndir sem sýndu kröftugt flæði í ánni eftir mikla rigningu á slóðunum.

„Það var vatn út um allt og ég fór með myndir og lét þá hafa. Þeir ætluðu að athuga þetta eitthvað bara. Það er alltaf eins, við bíðum alltaf eftir stórtjóninu og þurfum þá að gera mikið,“ segir Þorbjörn og felur ekki ósætti sitt við að ekki hafi verið brugðist við áhyggjum bænda og heimamanna sem vöruðu við hættunni mörgum árum áður en jökulhlaupið í Skálm hófst síðastliðna helgi. 

Ættu að hlusta á heimamenn

„Það má alveg segja sem svo að þessir snillingar eins og Magnús Tumi Guðmundsson, að þeir koma þarna eins og guð almáttugur og þykjast vita allt en ég held að það væri nær að þeir hlustuðu svolítið á bændurna þarna í nágrenninu,“ segir Þorbjörn. 

„Það eru þeir sem hafa alist þarna upp og hafa umgengist landið þarna í áratugi – það væri miklu nær að hlusta á þá með hvað er að gerast þarna heldur en að þeir komi þarna dag og dag og svo koma þeir í fréttirnar og ausa úr viskubrunni sínum sem er ekki fótur fyrir.“

Þorbjörn segist bara vilja segja hlutina eins og þeir eru.

„Þetta flóð var í boði Magnúsar Tuma Guðmundssonar.“

Heildartjón liggur ekki fyrir

Að sögn Þorbjörns fór sex hektara tún á kaf sem hafði tekið tvö ár að gera klárt.

„Ég get ekki ímyndað mér annað en að það sé ónýtt og það þurfi að gera nýtt tún einhvers staðar annars staðar.“

Hann tekur þó fram að heildartjónið liggi ekki fyrir. Enn eigi til dæmis eftir að koma í ljós hve margar kindur sluppu undan hlaupinu. Þá fylgi hlaupinu mikill leir sem liggi nú yfir stóru svæði.

„Svo þegar hann byrjar að þorna og byrjar svo að koma rok að þá verður kóf þarna alveg hreint. Það höfum við upplifað eftir flóðin í Skaftá. Þetta er svo lúmskt, oft þegar maður er þarna úti og það blæs þá er þetta svo fínt í loftinu. Maður finnur þetta þegar maður bítur saman tönnum. Svo er maður með rykið í augunum og alls staðar.“

Segir Þorbjörn að nú sé tími til að gyrða sig í brók og hefja vinnu við varnargarða á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert