Fremur vindasamt og blautt veður verður á landinu næstu daga.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
„Allmikil lægð er stödd á vestanverðu Grænlandshafi en hún mun stjórna veðrinu hjá okkur næstu daga. Austlægar áttir verða ríkjandi og væta með köflum mun fylgja, einkum suðaustantil. Lægðin ferðast austur á bóginn og verður komin skammt suður af landinu á föstudag. Lægðin fjarlægist okkur á laugardag og þá ætti að draga úr vindi og úrkomu,“ segir í hugleiðingunum.
Hins vegar er svo útlit fyrir að önnur djúp lægð komi sér fyrir suður af landinu á mánudag, frídag verslunarmanna, og þá gæti veðrið versnað aftur.
„Það verður því fremur vindasamt og blautt hjá okkur næstu daga, en þó er þetta ekki alslæmt því loftið yfir landinu verður í hlýrra lagi,“ segir í hugleiðingunum.