Vonast til að geta vottað Reykjavíkurmaraþonið

Reykjavíkurmaraþonið verður að öllum líkindum vottað í heilu og hálfu …
Reykjavíkurmaraþonið verður að öllum líkindum vottað í heilu og hálfu maraþoni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flest bendir til þess að heilt og hálft maraþon verði vottað í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Þetta segir Hrefna Hlín Sveinbjörnsdóttir, sviðsstjóri viðburðasviðs hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), í samtali við mbl.is.  

Margir hlauparar nýta sér hlaup eins og Reykjavíkurmaraþonið til að öðlast keppnisrétt í hlaupum erlendis, en þá þurfa hlaupin að vera vottuð til þess að komast á afrekaskrá FRÍ. 

Persónuverndarsjónarmið

Frá árinu 2003 hefur Reykjavíkurmaraþon verið í umsjón ÍBR sem eru samtök 77 íþróttafélaga í Reykjavík. Auk starfsmanna ÍBR koma um 600 sjálfboðaliðar að framkvæmd Reykjavíkurmaraþonsins og eru flest þeirra úr íþróttafélögum í Reykjavík.  

ÍBR sækir viðurkenningu á framkvæmd hlaupsins til FRÍ sem er æðsti aðili um öll frjálsíþróttamál innan vébanda Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. 

Þá setur FRÍ reglugerð um framkvæmd hlaupa og eru úrslit götuhlaupa ekki viðurkennd til afreka af FRÍ nema að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Niðurstöður hlaupa eru svo færðar yfir í opinbera afrekaskrá FRÍ.

ÍBR taldi þessa framkvæmd hins vegar brjóta persónuverndarlög. Þau töldu að þátttakendur ættu að geta valið um hvort þau yrðu skráð í afrekaskrá FRÍ en ekki skráð sjálfkrafa.

Til stóð að mögulega yrði hlaupið ekki vottað og varð kurr í hlaupaheiminum í kjölfarið. Þá var meðal annars gerður undirskriftarlisti þar sem ÍBR og FRÍ voru hvött til að finna út úr þessum málum.  

Staðan metin að ári liðnu

Nú virðist vera komin lausn í málið og útlit fyrir að hlaupið verði vottað í lengri vegalengdum.

Hrefna segir að nú muni þátttakendur þurfa að veita upplýst samþykki fyrir því hvort þeir vilji vera skráðir í afrekaskrá FRÍ og er það gert í skráningarferlinu með einu haki. 

Þeir þátttakendur sem hafa þegar skráð sig í hlaupið fá sendar upplýsingar í tölvupósti þar sem þeir geta valið um hvort þeir séu skráðir í afrekaskrá FRÍ eða ekki á „Mínum síðum“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert