Skýran greinarmun þarf að gera á milli samræmdu könnunarprófanna, sem skólayfirvöld lögðu niður eftir að framkvæmd þeirra misfórst árið 2021, og þeirra samræmdu lokaprófa sem voru við lýði í grunnskólum landsins fram til ársins 2008.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að síðarnefndu prófin yrðu tímaskekkja í menntakerfi dagsins í dag. Aftur á móti sé bagalegt að ekkert samræmt mat hafi verið lagt fyrir nemendur í fleiri ár.
Misheppnuð fyrirlagning prófanna árið 2021 hefur áður verið rifjuð upp í samtölum Morgunblaðsins og mbl.is við fólk sem þar átti aðkomu, í ítarlegri umfjöllun undanfarnar vikur.
Sjálfur var Magnús skólastjóri Seljaskóla á þessum tíma:
„Þetta voru einfaldlega hræðilegir dagar og þetta fór mjög illa,“ segir hann. „Þetta var bara vond framkvæmd um allt land.“
Arnór Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar, upplýsti Morgunblaðið í síðustu viku um að tekin hefði verið sú ákvörðun, við stofnun hennar árið 2015, að skipta yfir í stafræn próf í stað þess að byggja upp aðstöðu fyrir pappírspróf, sem hefði annars þurft heilmikið skipulag þar sem nýtt húsnæði var fengið undir nýju stofnunina.
„Það var alltaf ljóst að við gerðum þetta bara með einhverju bráðabirgðakerfi til þess að byrja með. Síðan var talað um að við þyrftum að fara í útboð á almennilegu kerfi, kaupa fullþróað prófakerfi. Það kom aldrei stuðningur eða fjármagn til þess,“ sagði Arnór.
„Við sátum uppi með mjög gallað kerfi, sem á endanum sannaðist þegar það hrundi tvisvar. Þannig að við fengum bara aldrei þann stuðning og fjármagn sem þurfti til þess að taka upp almennileg kerfi og leggja fyrir prófin með því.“
Magnús segir svo frá:
„Samræmdu prófin eins og þau voru þarna síðustu tvö, þrjú árin – þau voru bara þess eðlis að menn urðu að taka hlé. Ég var í Seljaskóla með hátt í sextíu krakka í árgöngum, ef ég man rétt þá var um þriðjungur sem náði að klára prófið.
Hjá mörgum datt prófið út og kom svo til baka þegar það var korter eftir og þá áttu þau ef til vill 70% eftir af prófinu. Önnur sendu svo inn próf og fengu aldrei niðurstöðu. Og þetta gerist nokkur ár í röð.“
Samræmdu könnunarprófin virkuðu því ekki sem það mikilvæga matstæki sem þeim var ætlað að vera, eins og fram hefur komið. En í stað þess að færa prófin til betri vegar þá var brugðið á það ráð að leggja þau niður.
Eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa greint frá verður nýtt námsmat, matsferill, ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027. Samt sem áður heldur menntamálaráðuneytið því enn fram í samráðsgátt stjórnvalda að matsferillinn verði reiðubúinn til notkunar eftir áramót.
Í þessu samhengi má til samanburðar nefna að fáein ár eru liðin frá því Veðurstofan þurfti að flytja mælistöðina fyrir utan byggingu sína við Bústaðaveg. Nýjum mæli var þá komið fyrir en þeim gamla haldið á sama stað í nokkur ár, til að vísindamenn gætu komið auga á mun þeirra á milli og fyrir vikið samræmt áframhaldandi mælingar.
Á sama tíma hefur ekkert komið í stað samræmdra könnunarprófa í grunnskólum landsins. Því er ljóst að minnst sex ár muni líða án þess að gert verði samræmt innlent mat á hæfni íslenskra grunnskólanemenda.
„Það er mjög leiðinlegt að það verður þetta rof og að það verði vegna þess að samræmdu prófin eru lögð niður út frá tæknivanda.“ segir Magnús og bætir við að faraldur Covid-19 og tilheyrandi samkomutakmarkanir stjórnvalda hafi einnig átt þar hlut að máli.
„Samræmdar mælingar er eitthvað sem er kveðið á um í grunnskólalögum, sem hluti af innra og ytra mati skóla. Sannarlega vantar okkur mælikvarða á gæði og það má segja að samræmdu könnunarprófin hafi átt að vera sá kvarði að hluta til, þó þau hafi þarna undir lokin farið frekar illa út úr tæknimálum.“
Má þá ekki segja það berum orðum að það hafi verið mistök hjá skólayfirvöldum að leggja þetta niður?
„Það er kannski erfitt að segja að það hafi verið mistök að fella þau niður eins og þau voru. Það ætti kannski frekar að velta því fyrir sér hvernig stóð á því að við sitjum uppi með það að láta heilt kerfi, sem hafði gengið vel í tíu til tólf ár, hrynja með þeim hætti sem raun ber vitni,“ segir Magnús.
„Það koma þarna þrjú ár í röð – það var svona smá bras fyrsta árið – svo komu næstu tvö ár þar sem þetta fór allt gjörsamlega í skrúfuna og þá sögðu allir kennarar og foreldrar að þetta gerðu þeir ekki aftur.
Það fór því ekki fram nein tæmandi umræða á sviði kennslufræða um að leggja þessi próf af og hvað ætti að taka upp í stað þeirra. Þetta voru einfaldlega tæknivandamál og svo dagar þetta uppi þangað til núna.“
Skólayfirvöld hafa uppi áform um að svokallaður matsferill komi í stað prófanna, eins og áður var vikið að. Innleiðing hans og tafir á henni hafa mátt sæta gagnrýni.
„Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi klárlega að kynna þennan feril betur, vinna hann í enn meira samráði, og ég treysti á að menn séu að gera það,“ segir Magnús um innleiðingu nýja námsmatsins.
„Mælingar á gæðum skipta okkur máli og sorgarsagan um endalok samræmdu könnunarprófanna er auðvitað allt öðru tengd,“ bætir hann við.
„Eins og við höfum skilið matsferilinn – sem við erum auðvitað bara umsagnaraðilar að – þá eru þar ferlar sem eiga að geta komið í þeirra stað.
Samræmdar mælingar sem nýtast skólunum eru bara tæki sem við þurfum að hafa. Það er sárt að segja en við stöndum bara verr með það á Íslandi heldur en margar nágrannaþjóðir okkar – að geta rýnt inn í skólana okkar og séð hvernig við náum meiri árangri á ólíkum sviðum.“
Niðurstöður alþjóðlegu PISA-könnunarinnar, sem lögð var fyrir árið 2022, vöktu töluverða athygli hér á landi þegar þær voru kynntar í desember á síðasta ári. Ekkert þátttökuríkja féll þar meira á milli kannana en Ísland, sem var einnig neðst allra Evrópuríkjanna ef undan er skilið Grikkland.
Þetta fall var þó aðeins hluti af lengri þróun, þar sem Ísland hefur færst sífellt meira niður á við undanfarin ár. Þróun sem gagnrýnendur kerfisins hafa tengt við afnám samræmdu lokaprófanna árið 2008.
Magnús segir að innan menntakerfisins hafi mikið verið rætt um hvað læra megi af niðurstöðunum sem birtust í desember.
„Þar eru komin um tuttugu atriði sem menn vilja skoða,“ segir hann. „Hins vegar má kannski benda á að þó við Íslendingar höfum fallið meira en margir aðrir þá er sveiflan í PISA á Vesturlöndum almennt sú að árangurinn er að versna á bóklega þættinum. Það virðist ekki vera fylgni þar á milli hvernig námsmati er háttað. Þetta er bara tilhneiging.“
„Það breytir því ekki að við þurfum að horfa til þess að bæta það. En ég held að eitt samræmt lokapróf, og allt sem því myndi fylgja – ég held að það myndi ekki breyta neinu um þetta.“
Þá tekur hann fram að niðurstöður Íslands hafi þegar verið teknar að versna áður en samræmdu lokaprófin voru lögð niður.
„En PISA-prófið er einn mælikvarði sem við viljum horfa til og það er það sem við erum að gera. Mér hefur fundist sú vinna í vetur ganga vel með aðkomu tveggja ráðuneyta, háskólanna og þeirra aðila sem vilja gera betur. Nú hefur verið mótuð ákveðin aðgerðaáætlun, sem á svo að ydda áfram í haust, sem á svo að koma til móts við þessar niðurstöður.“
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði út af umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is undanfarnar vikur þegar hann skrifaði grein í blaðið og sagði það staðreynd að skólakerfinu hefði hnignað. Magnús kveðst ekki sammála þeirri fullyrðingu þingmannsins.
„Það er aftur á móti alveg hægt að segja að áherslurnar eru allt aðrar en hafa verið og við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir því hvað það er sem gengur vel og hvað við getum gert betur,“ segir formaðurinn og heldur áfram:
„Umræðan hefur svolítið verið á þann veg að Kennarasambandið sé að leiða vegferð á móti öllum samræmdum mælingum. Það er ekki rétt og við höfum alveg tekið þátt í umræðu um þennan nýja matsferil, sem mér finnst hægt og rólega vera að útskýrast.
Það er alveg hreint og klárt að við þurfum að vera með mælikvarða á starfinu okkar, ekki bara í grunnskólum heldur á öllum skólastigum. Ef við mælum ekki þá vitum við ekki hvar við stöndum vel og hvar við stöndum illa. Hins vegar er munur á samræmdri mælingu og svo samræmdu lokaprófi sem á að vera afrakstur heillar grunnskólagöngu.“
Viðskiptaráð Íslands, sem rekur Verzlunarskólann, hefur lýst því hvernig útskriftareinkunnir sumra grunnskóla hafa tekið að hækka meira en annarra, án þess að þær endurspegli meiri hæfni viðkomandi nemenda.
Jafnræðis sé því ekki gætt í núverandi kerfi, eftir afnám samræmdu lokaprófanna, og nemendum hreinlega mismunað eftir búsetu.
Magnús segir að samkvæmt sinni reynslu sé mikil samvinna innan borgarhluta og jafnvel landshluta, um að gæta samræmis í einkunnum á milli grunnskóla og einnig innan þeirra, yfir allan útskriftarárganginn.
Rannsóknir sýna samt sem áður að einkunnaverðbólga hefur raunverulega átt sér stað. Meðal annars hefur verið sýnt fram á að hennar gæti meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.
„Að hluta til held ég að einkunnaverðbólgan, ef hún er, sé kannski bara vegna þess að okkur hefur tekist með breytingum á menntakerfinu að fanga það sem við vildum: Að fleiri einstaklingar fengju nám við sitt hæfi,“ segir Magnús.
„Sem þýðir í raun það að þínir hæfileikar, sem voru kannski lítið metnir á bóklega samræmda prófinu, geta komið vel út þegar þeir eru metnir á annan veg. Það hefur orðið mikil breyting á hugarfari nemenda og foreldra til náms á síðustu þrjátíu árum, þýðir þá að fleiri ná betri einkunnum. Þetta á við um bæði grunn- og framhaldsskólana.“
Nú sýnir PISA fram á öfuga þróun. Er PISA þá að mæla eitthvað allt annað á sama tíma?
„Það er ein af þessum óútskýrðu spurningum sem við verðum að svara. Það kom okkur á óvart að lesskilningurinn færi svona illa og við höfum rætt það.
Eitt af því sem við þurfum að horfa til er að vinna betur með fræðitexta, ekki bara horfa til grunnlæsisins á yngstu stigunum, heldur horfa til þess að ígrunda meira í fræðitextum. Það er eitt af því sem bent hefur verið á í því samráðsferli sem verið hefur í gangi í kjölfar niðurstaðna PISA í vetur.“