Bilun hjá Arion banka lagfærð

Tekið var eftir biluninni klukkan 9 í morgun.
Tekið var eftir biluninni klukkan 9 í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bilun kom upp í þjónustuappi og netbanka Arion banka. Bilunin snéri að tengingu hóps viðskiptavina við þjónustu bankans. Bilunin hafði ekki áhrif á alla viðskiptavini og hefur verið lagfærð. 

Þetta staðfestir Sverrir Norland, upplýsingafulltrúi hjá Arion banka í samtali við mbl.is. 

Hann segir jafnframt að bilun sem þessi hafi ekki komið upp áður. Unnið sé að því að þetta komi ekki upp aftur. Ekki var um öryggisbrest að ræða.

Tók um klukkustund að laga 

„Þetta er nú sjaldgæft að þetta komi upp, enda stórt teymi sem vakir yfir þessu appi,“ segir Sverrir. 

Bilunarinnar var viðvart klukkan 09.00 í morgun og tók um klukkustund að lagfæra bilunina. 

Þegar blaðamaður mbl.is hringdi í þjónustuver um klukkan 09.45 var búið að setja inn símsvaraskilaboð hjá þjónustuveri bankans. 

„Tímabundin bilun er í netbanka og appi. Við biðjumst velvirðingar á þessum óþægindum, unnið er að viðgerð,“ sagði í símsvaraskilaboðunum.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert