„Þetta leggst vel í mig, virkilega vel. Gaman að fá að taka þátt í dag sem gestur og sjá hvernig þetta fer fram og mikill heiður, heiður að fá að vera viðstödd þegar nýr forseti tekur við,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir verðandi biskup.
Guðrún tók við embætti 1. júlí en verður ekki vígð sem biskup Íslands fyrr en í haust.
mbl.is náði tali af Guðrúnu áður en hún gekk inn í Dómkirkjuna þar sem innsetningarathöfn Höllu Tómasdóttur í embætti forseta Íslands fer nú fram.
Guðrún segist ekki hafa verið viðstödd innsetningarathöfn með þessum hætti áður.
„Þetta er gleðidagur, ég hlakka til að biðja fyrir nýjum forseta og fylgja henni.“