Góð skemmtun er örugg og ofbeldislaus

Frá Þjóðhátíð í fyrra.
Frá Þjóðhátíð í fyrra. mbl.is/Óskar Pétur

Meginskilaboð ríkislögreglustjóra til landsmanna fyrir helgina er að skemmta sér vel og að góð skemmtun sé örugg og laus við ofbeldi. 

„Við höfum verið með vitundarvakningu sem heitir Góða skemmtun þar sem við erum að hvetja fólk til þess að skemmta sér vel og að allir komi heilir heim,“ segir Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra.

Verslunarmannahelgin er rétt handan hornsins og undirbúningur hjá lögregluembættum víðs vegar um land hafinn, til að mynda með verkefninu Góða skemmtun.

Eygló segir þetta þriðja sumarið sem farið er af stað með vitundarvakninguna og sé verkefnið samstarfsverkefni á milli lögreglunnar og neyðarlínunnar við þá fjölmörgu aðila sem standa að skemmtunum í sumar. Þá sé verkefnið styrkt af dómsmálaráðuneytinu.

Samvinna skilar mestum árangri

Segir Eygló að sést hafi hvað undirbúningur, skipulagning og samvinna við sveitarfélög landsins og viðbragðsaðila skipti miklu máli. Nefnir sem dæmi um undirbúning þjálfun fyrir þá sem sinna gæslu og að reynt sé að fá það fólk sem tekur þátt í viðburðum að gæta hvert að öðru.

„Það er töluverður undirbúningur og sérstaklega fyrir stærstu viðburðina. Það hefur alltaf verið mjög mikill undirbúningur sem tengist Þjóðhátíð. Það hefur oft líka mjög mikið verið í gangi á Akureyri. En við erum ekki bara að horfa á þá viðburði. Innipúkinn er hér á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið mjög vinsæll. Neistaflug fyrir austan og mýraboltinn fyrir vestan þannig þetta er hringinn í kringum landið. Öll embættin hafa verið að undirbúa sig og tryggja þessa samvinnu af því að það er sem við höfum séð að skili langmestum árangri,“ segir Eygló og bætir við:

„Meginskilaboðin eru að góð skemmtun er örugg og ofbeldislaus og við erum til staðar.“

Eygló Harðardóttir er verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra.
Eygló Harðardóttir er verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert