Íbúar á Grund setja upp hálsklúta

Íbúar Grundarheimilinna ætla að klæðast „Hölluklútum“.
Íbúar Grundarheimilinna ætla að klæðast „Hölluklútum“. Samsett mynd/Grundarheimilin

Slegið verður upp veislu á Grundarheimilum í dag er Halla Tómasdóttir verður formlega sett í embætti sem sjöundi forseti Íslands.

„Við ætlum að horfa á útsetninguna og taka beinan og óbeinan þátt í þessum stóra og merka degi. Þetta er svona okkar leið til að tengja heimilisfólk við það sem er í gangi í samfélaginu,“ segir Fanney Björg Karlsdóttir, deildarstjóri iðju-og félagsstarfs Grundarheimilanna.

Dagurinn verður litaður af innsetningarathöfninni. Haldinn verður spurningaþáttur um forseta lýðveldisins og verða settar upp hátíðlegar skreytingar á öllum heimilunum með íslenska fánanum.

Síðan ætla íbúar að taka upp sparifötin og setja á sig hálsklúta til heiðurs nýjum forseta Íslands.

Fagna nýjum kvenforseta

„Við fögnum því bara að fá kvenforseta aftur í hús á Bessastaði. Þetta er bara til þess að grípa tækifærið og nota það til að rífa upp stemninguna á heimilunum sem og að gleðjast yfir einhverju skemmtilegu saman.“

Halla og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, heimsóttu Grundarheimilin í kosningarbaráttunni og segir Fanney heimsóknina hafa verið eftirminnilega fyrir íbúa. Aðspurð segir hún að það sé mikil tilhlökkun fyrir hennar hönd á öllum heimilunum.

„Það var almenn ánægja þegar hún kom í heimsókn á heimilin með manninum sínum. Hún kom mjög vel fyrir og hann ekki síður, þau komu bæði inn brosandi og með mikla birtu sem er alltaf kærkomið, svo við fögnum nýjum forseta hér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert