Katla brotið sitt fyrra mynstur

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul. mbl.is/RAX

„Okkur hættir til að gera ráð fyrir því að næsta gos í tiltekinni eldstöð verði nákvæmlega eins og það síðasta. Síðasta Kötlugosið, 1918, var gífurlegt sprengigos, en margir gera þá rökvillu að halda að það sé hið dæmigerða eldgos í Kötlu og að þess vegna megi búast við að öll næstu gos verði í ætt við það,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Páll telur að varlega verði að fara í að draga of miklar ályktanir um næsta eldgos í Kötlu út frá gosmynstri fyrri alda.

„Það sem hefur villt mörgum sýn með Kötlu er það að hún sýndi mjög reglulega goshegðun á 300 ára tímabili frá 17. til 20. aldar. Þá gaus hún alltaf stórum sprengigosum á 40 og 60 ára fresti.

Síðast kom feikimikið gos árið 1918 sem passaði ágætlega inn í þetta mynstur, og því voru allir jarðfræðingar sannfærðir um það rúmum 40 árum síðar, árið 1960, að Katla væri að fara að gjósa á ný. Þetta stóra gos hefur hins vegar enn ekki skilað sér og nú eru liðin 64 ár síðan þá,“ segir Páll.

Blikur á lofti

Hann telur því helstu niðurstöðuna sem draga megi af þessari hegðun þá að Katla hafi nú brotið sitt gamla gosmynstur og því séu blikur á lofti, þar sem ómögulegt sé að spá fyrir um af hvaða gerð og hvenær næsta gos verði.

„Megineldstöðvar eru ekki mikið fyrir að endurtaka sig, en eftir því sem gosin eru stærri, þeim mun minni líkur eru á að eldstöðvarnar gjósi aftur með sama hætti og áður, þar sem stór eldgos breyta gjarnan öllu eldstöðvarkerfinu,“ segir Páll og bætir við:

„Katla hefur í gegnum tíðina verið afar fjölbreytt eldstöð, og allt mögulegt getur gerst þar. Til dæmis má nefna í því sambandi Eldgjárgosið árið 930, en það var stórt hraungos og mjög ólíkt því sem þekkst hefur allar götur síðan.

Aldirnar á eftir breyttist svo öll goshegðun aftur og stór sprengigos urðu algengari. Samsetning kvikunnar getur einnig breyst, en efni hennar í síðustu sprengigosum frá 1625 til 1918 var basískt. Katla hefur hins vegar gosið súrum sprengigosum áður og það veit því enginn við hverju er að búast næst.“

Lengra viðtal má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka