Kona setur konu í embættið í annað sinn

Frá vinstri: Kristín Edwald, Halla Tómasdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og Guðrún …
Frá vinstri: Kristín Edwald, Halla Tómasdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og Guðrún Erlendsdóttir. Samsett mynd

Halla Tómasdóttir tekur við embætti forseta Íslands í dag. Hún verður önnur konan til að gegna embættinu. Formleg dagskrá hefst kl. 15.30.

„Uppsetningin er sú sama að stofni til og 2016 [þegar Guðni tók fyrst við embætti]. Árið 2020 var auðvitað Covid og þá var þetta allt smærra í sniðum,“ segir Sigurður Örn Guðleifsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu sem ber ábyrgð á skipulagningu embættistökunnar, í samtali við Morgunblaðið.

Dagskráin hefst með helgistund í dómkirkjunni. Þaðan verður haldið til þinghússins, þar sem athöfnin fer fram. Að yfirlýsingu forsetakjörs og drengskaparheiti loknu mun nýr forseti Íslands flytja ávarp og minnast fósturjarðarinnar af svölum þinghússins.

Almenningur er boðinn velkominn á Austurvöll að fylgjast með. Þar verða settir upp skjáir og sýnt verður í beinni útsendingu frá athöfninni í þinghúsinu og helgistundinni í dómkirkjunni.

Kristín lýsir kjöri

Athöfnin verður frábrugðin fyrri athöfnum að því leyti að formaður landskjörstjórnar mun lýsa kjöri. Áður fór forseti Hæstaréttar með það hlutverk, en þá voru gefin út kjörbréf. Fyrirkomulaginu var breytt með nýjum kosningalögum sem samþykkt voru árið 2021. Í lögskýringargögnum með frumvarpinu segir að breytingin komi til vegna ábendingar Hæstaréttar um að slík kosningaumsýsla samræmist ekki hlutverki réttarins.

Lögmaðurinn Kristín Edwald er formaður landskjörstjórnar. Einu sinni áður hefur það gerst að kona setji konu í embætti forseta Íslands. Það var árið 1992 þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin í fjórða sinn. Þá lýsti Guðrún Erlendsdóttir kjöri, þáverandi forseti Hæstaréttar.

Guðrún lýsir kjöri. Við hlið hennar sitja Davíð Oddsson, fyrrverandi …
Guðrún lýsir kjöri. Við hlið hennar sitja Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Salóme Þorkelsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis. mbl.is/Árni Sæberg

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert