Má búast við sveiflum í verðbólgu milli mánaða

Hagfræðideild Landsbankans spáir sveiflum í verðbólgu milli mánaða en að …
Hagfræðideild Landsbankans spáir sveiflum í verðbólgu milli mánaða en að ársverðbólgan haldist tiltögulega stöðug. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,46% á milli mánaða í júlí og við það jókst ársverðbólga úr 5,8% í 6,3%. Aukna ársverðbólgu má að mestu rekja til aukins framlags húsnæðis.

Þetta kemur fram í mánaðarlegu fréttabréfi hagfræðideildar Landsbankans. 

Í bréfinu kemur fram að almennt megi búast við sveiflum í verðbólgu milli mánaða. Þó er því spáð að ársverðbólga haldist tiltölulega stöðug í ágúst og september en hjaðni niður í 5,6% í október.

Spáð er að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum í ágúst, sem myndi þýða að þeir hefðu haldist óbreyttir í heilt ár, og að vaxtalækkunarferli hefjist ekki fyrr en í október eða nóvember.

Landsbankinn

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4%

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% milli mánaða í júní og jókst árshækkun hennar úr 8,4% í 9,1%. Árshækkunin hefur aukist smám saman undanfarið ár og velta á markaðnum hefur færst verulega í aukana.

Verðhækkanir á íbúðamarkaði eru nokkuð umfram almennar verðhækkanir og raunverð íbúða er 5% hærra en á sama tíma í fyrra.

Árshækkun launavísitölunnar hefur dregist verulega saman á síðustu mánuðum. Vísitalan er nú 6,0% hærri en á sama tíma í fyrra.

Þetta skýrist aðallega af hófstilltari launahækkunum í síðustu kjarasamningum en í þeim sem gerðir voru ári fyrr. Einnig kann að vera að minnkandi spenna á vinnumarkaði hafi dregið úr launaskriði, að því er segir í fréttabréfinu. 

Meira atvinnuleysi í ár 

Árshækkun launa er sambærileg verðbólgunni og því hefur kaupmáttur launa staðið nokkurn veginn í stað á síðustu 12 mánuðum.

Skráð atvinnuleysi var 3,1% í júní og minnkaði úr 3,4% frá því í maí. Þótt atvinnuleysi hafi dregist saman á milli mánaða er það engu að síður 0,2 prósentustigum meira en á sama tíma í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert