Ráðuneytið veitti engar leiðbeiningar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Dómsmálaráðuneytið kveðst engar leiðbeiningar hafa gefið út í tengslum við nafnabreytingar líkt og þær sem Þjóðskrá Íslands segist hafa stuðst við í nafnabreytingarferli Mohamads Th. Jóhannessonar, sem áður hét Mohamad Kourani.

Mohamad á langan brotaferil að baki og var á dögunum dæmdur í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps auk annarra brota.

mbl.is greindi frá því í síðasta mánuði að nafnabreytingin hefði verið samþykkt en erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi geta sótt um nafnbreytingu á grundvelli laga um mannanöfn.

Aftur á móti lúta kenninöfn, þ.e. nöfn eins og Jónsdóttir eða Guðrúnarson, strangari skilyrðum.

Ráðuneytið sjónarmiðum sínum á framfæri við Þjóðskrá

„Í umfjöllun í fjölmiðlum um nafnbreytingu erlends ríkisborgara var haft eftir Þjóðskrá Íslands að stuðst hefði verið við leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

„Dómsmálaráðuneytið hefur ekki gefið út leiðbeiningar, hvorki almennar né sérstakar, varðandi túlkun á 16. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og gaf heldur ekki sérstakar leiðbeiningar í þessu tiltekna máli.

Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands á grundvelli laga um mannanöfn eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins. Af framkvæmd úrskurða í kærumálum þar sem synjanir Þjóðskrár Íslands eru kærðar til ráðuneytisins mótast óhjákvæmilega viðmið sem kunna að hafa fordæmisgildi í sambærilegum málum. Svo háttaði þó ekki til í því máli sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum,“ segir þar enn fremur.

Þá segir að skírskotun Þjóðskrár Íslands til leiðbeininga frá ráðuneytinu hafi ekki verið rétt og til þess fallin að valda misskilningi. Hefur ráðuneytið komið sjónarmiðum sínum á framfæri við stofnunina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert