Rétt að breyta handhöfn forsetavalds

Rétt kann að vera að breyta fyrirkomulagi því, sem tíðkast um handhafa forsetavalds. Greiðari samgöngur og fjarskipti hafa gert það að miklu leyti óþarft, segir Örnólfur Thorsson fyrrverandi forsetaritari.

Þetta kemur fram í viðtali við Örnólf í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins á netinu, í tilefni af innsetningu forseta Ísland í embætti nú síðdegis, kl. 15.30.

Við þá athöfn koma handhafar forsetavalds nokkuð við sögu, en þeir eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar. Guðni Th. Jóhannesson lét af forsetaembætti á miðnætti í gær, en þar til Halla Tómasdóttir hefur undirritað eiðstaf sinn fara þeir með forsetavald.

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arfur frá fyrri tíð

Örnólfur bendir á að sá háttur, að handhafar taki við forsetavaldi í fjarveru hans, eigi rætur að rekja til fyrri tíðar þegar ferðalög voru mun tímafrekari og óvíst að ná mætti sambandi við forseta meðan á þeim stóð.

Nú sé öldin önnur; skjótast megi úr landi án þess að eyða mörgum dögum í hafi og auðvelt að viðhalda sambandi á meðan þeim stendur, en þar á meðal megi nota rafræna undirritun til þess að sinna nauðsynlegum embættisverkum hvaðan sem er.

„Þetta er eitt af því, sem mér finnst að ætti að huga að því að breyta, þetta handhafakerfi,“ segir Örnólfur.

Horfa má á allt viðtalið hér, en þátturinn er opinn öllum áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert