Isavia leggur 1.490 króna þjónustugjald ofan á hverja einustu rukkun, þegar bílastæðagjöld eru ekki greidd innan 48 klukkustunda.
Því fékk viðskiptavinur að kynnast nýlega, þegar hann lagði bíl sínum í stæði opinbera hlutafélagsins og átti að greiða fyrir það 500 krónur samkvæmt gjaldskrá.
Síðar fékk hann aftur á móti rukkun í heimabankann fyrir 1.990 krónur, en þá hafði 1.490 króna þjónustugjaldi verið bætt við.
Isavia segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að bílastæðagjald sé innheimt í samræmi við gjaldskrá og það sé mismunandi eftir því hvaða bílastæði er um að ræða.
Bílastæðagjöldin er hægt að greiða í Autopay- og Parka-smáforritunum, í sjálfsölum inni í flugstöðinni eða í þjónustubásum í flugstöðinni sem opnir eru allan sólarhringinn. Þá er hægt að greiða gjaldið á vefsíðu Autopay í 48 tíma frá útkeyrslu af bílastæði.
„Ef bílastæðagjald er ekki greitt innan 48 klst. eftir útkeyrslu er krafa send í heimabanka eiganda/umráðamanns ökutækisins að viðbættu þjónustugjaldi kr. 1.490,“ segir í svari Isavia.
„Þetta þjónustugjald er lagt á til að mæta þeim kostnaði sem til fellur við það að senda kröfu í heimabanka, auk vinnu starfsfólks við að stofna kröfuna í kerfum Isavia og senda í heimabankann,“ segir þar enn fremur.
„Frá því að nýtt bílastæðakerfi var tekið upp fyrir rúmu ári hefur það legið fyrir að gjaldheimta sem þessi yrði hluti af rekstri bílastæðanna en þjónustugjaldið var fyrst innheimt um mánaðamótin mars/apríl á þessu ári. Innheimta þjónustugjaldsins hefur verið kynnt í auglýsingum, á samfélagsmiðlum, er í skilmálum á vefsíðu Isavia, auk þess sem skilti með þessum upplýsingum blasa við ökumönnum þegar þeir keyra úr af bílastæðunum.“