Miðflokkurinn mælist nú með sitt mesta fylgi frá upphafi mælinga Gallup á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælst með minna fylgi. Vinstri græn næðu ekki manni á þing.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup sem RÚV greinir frá.
Samfylkingin mælist með 27,6% fylgi á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 17,2% fylgi. Eins og áður segir hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei í sögu mælinga hjá Gallup mælst með svona lítið fylgi.
Miðflokkur mælist með 14,6% fylgi sem er mesta fylgi þeirra frá upphafi mælinga Gallup. Þetta er þó á pari við mælinguna fyrir mánuði síðan þar sem þeir mældust með 14,5% fylgi, sem var þá þeirra besta mæling frá upphafi.
Viðreisn mælist með 8,8% fylgi og Flokkur fólksins 8,6%. Píratar eru með 7,8% og mælast með meira fylgi en Framsókn sem mælist með 7,2% fylgi.
Sósíalistaflokkurinn mælist með 4,7% fylgi og er með meira fylgi en Vinstri græn sem mælast með 3,5% fylgi og myndu ekki fá mann inn á þing.
27% svarenda segjast styðja ríkisstjórnina.