„Smá, en kná og kjarkmikil þjóð“

Halla Tómasdóttir, nýr forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir, nýr forseti Íslands. mbl.is/Eyþór

Halla Tómasdóttir tók við embætti forseta Íslands nú fyrir skömmu. Í ræðu sinni við innsetningarathöfnina í Alþingishúsinu lagði Halla áherslu á íslensk afrek, íslenskan þjóðararf og hvert þjóðin gæti stefnt í hörðum heimi í þágu næstu kynslóða.

Halla kvaðst þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fundið frá þjóðinni, þakklát fyrir stuðning foreldra sinna, þakklát fyrir að hafa fæðst hér á landi og þakklát fyrir seiglu og vinnu fyrri kynslóða. Þá þakkaði hún fyrri forsetum lýðveldisins og minnist þeirra sem liðnir eru.

„Nú þegar ég vinn drengskaparheit að íslensku stjórnarskránni eru aðeins áttatíu ár liðin frá stofnun lýðveldisins. Áttatíu ár eru um það bil einn mannsaldur. Hvað hefur áunnist á þessum tíma? Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg?

Íslendingar eru þrefalt fleiri nú en þá, og allar aðstæður eru gjörbreyttar: Menntun, efnahagur, heilbrigðisþjónusta, samgöngur, samsetning þjóðar, atvinnulífið, þjóðartekjur. Við, sem vorum ein fátækasta þjóð Norður-Evrópu erum nú meðal ríkustu þjóða heims. Það hefur orðið umbylting á einungis áttatíu árum – og því er vert að spyrja á þessum tímamótum, hvert viljum við stefna, já og hvar viljum við vera stödd, bæði í náinni framtíð en jafnvel líka að áttatíu árum liðnum?

Það kom vel í ljós á ferðum okkar hjóna um landið í vor hversu annt Íslendingum er um landið sitt og tungumál og hversu stolt við erum af afrekum okkar og þjóðararfi,“ sagði Halla.

Halla og eiginmaður hennar Björn Skúlason.
Halla og eiginmaður hennar Björn Skúlason. mbl.is/Eyþór

Mistökin okkur dýrmæt

Hún fagnaði þeirri miklu nýsköpun sem hefur fengið að vaxa og dafna hér á landi.

„Við eigum að halda áfram að byggja á styrkleikum okkar, virkja sköpunargáfuna og vanda til verka. Við eigum óhrædd að hvetja kappsfullt hæfileikafólk til dáða og ekki gera lítið úr dýrmætum skóla mistakanna. Sár reynsla getur og hefur styrkt okkur.“

Þá lagði hún áherslu á mikilvægi lista og íþrótta fyrir íslensku þjóðina, sendi kveðjur til keppenda Íslands á Ólympíuleikunum í París og sagðist hlakka til að vera viðstödd á Ólympíuleikum fatlaðra nú síðar í mánuðinum. Hún sagði mörgu að fagna en um leið ættu mannréttindi undir högg að sækja víða um heim og traust milli fólks fari minnkandi.

„Um allan hinn vestræna heim hafa yfirvöld, fjármálastofnanir, fyrirtæki, fjölmiðlar og stjórnkerfi misst tiltrú almennings. Þótt flest sinni störfum sínum af heilindum, þá hafa þau, sem ekki reynast traustsins verð, valdið skaða.“

Guðni Th. Jóhannesson og fleiri fyrrverandi forsetar fjölmenntu.
Guðni Th. Jóhannesson og fleiri fyrrverandi forsetar fjölmenntu. mbl.is/Eyþór

Mikilvægt að ákveða hver við viljum vera

Reynsla og rannsóknir sýni að minna traust valdi sinnuleysi meðalkjósenda. Fólki, og þá sérstaklega ungu fólki, finnist ekki taka því að kjósa, upplifi að það breyti engu. Það finni jafnvel ekki tilgang í því að taka þátt í samfélaginu. Sífellt fleiri heillast af málflutningi þeirra sem bjóða einfaldar og oft öfgakenndar lausnir.

„Við megum ekki sýna andvaraleysi í þessum efnum og nú bætist það við að tæknin gerir kleift að falsa bæði hljóð og mynd – svo nær ómögulegt verður að greina sannar fréttir frá fölsuðum. Hverju og hverjum er þá óhætt að trúa? Hvað verður um traustið?  Tækniþróunin verður ekki stöðvuð en grandaleysi á þessu sviði getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélög og þróun lýðræðis,“ sagði Halla.

Hún lýsti einnig áhyggjum sínum af andlegri og samfélagslegri heilsu Íslendinga og sagðist vilja leggja sitt af mörkum til þess að ráðast að rót vandans í samstarfi við fagfólk.
Einnig væri mikilvægt að miðla kunnáttu á milli kynslóða og að ungt fólk fái sæti við borðið.

„Á svona tímum er nauðsynlegt að staldra við og íhuga hver við viljum vera, hvert við viljum stefna og hvernig við getum styrkt traust milli manna. Hvert viljum við beina íslenska lýðveldinu næstu 80 árin? Við þurfum að átta okkur á því og stilla okkur af. Því hvert stefnir þjóðarskúta með illa stilltan áttavita og veikan samfélagssáttmála? “

Halla og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Halla og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Eyþór

Mikilvægt að tala saman og hlusta á reynslu og sjónarmið

„Í mínum störfum hef ég farið fyrir nýrri nálgun að úrlausn áskorana og dregið af því lærdóm. Reynslan hefur kennt mér að farsælast er að kalla ólíka saman, spyrja spurninga og hlusta á fjölbreytt sjónarmið. Fá fólk til að greina og skilja vandann og sóknarfærin – og sníða lausnir sameiginlega.

Þegar traust er lítið þurfa stjórnvöld, atvinnulífið og samfélagið allt að koma saman með nýjum hætti, vinna saman að framtíðarsýn á sameiginlegum grunni þjóðarinnar. Það er meira framboð en eftirspurn eftir þeim sem þykjast eiga öll svör, en þjóðin sjálf, ekki síst unga kynslóðin, sættir sig ekki lengur við að fá ekki að svara til um sína framtíð.“

Forsetinn spurði hvort að íslenskt samfélag hefði hugrekki til þess að fara nýjar leiðir, til þess að tala saman, velja mýktina og vinna þvert á kynslóðir og skoðanir. Svör okkar ákveði hvernig framtíð næstu kynslóða verði. Hún sagðist hafa trú á því að þjóðin finni svörin við nauðsynlegum spurningum og takist á við áskoranir með íslenska seiglu að vopni. Svörin finnist í samtölunum.

Styrkurinn felist í smæðinni og mýktinni

„Ég er sannfærð um að Ísland og Íslendingar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í heimi í vanda. Ég hef trú á styrkleikum okkar og veit að við getum áfram byggt á þeirri sérstöðu sem við höfum þegar skapað okkur á sviði jafnréttis og jarðvarma, í listum, íþróttum og í lýðræðislegri þróun samfélags sem setur mannréttindi á oddinn. Ég tel styrk okkar ekki síst felast í smæðinni og – í mýktinni.

Smá, en kná og kjarkmikil þjóð sem hefur visku og metnað til að velja mýkri leiðir í hörðum heimi. Ég trúi því að við getum valið að vera friðsæl þjóð sem nýtur velsældar og réttir jafnframt hlýja hönd til þeirra sem á þurfa að halda. Þannig getum við verið öðrum góð fyrirmynd og ljós í því myrkri sem víða ríkir.   

Kæru landar, það val byrjar hjá hverjum og einum. Hver ætlum við að vera og hvað veljum við að gera á tímum þegar svo margir velja átök og árásir á þá sem ekki eru þeim sammála? Mætum við hvert öðru með opnum hug og hjarta, tilbúin til að hlusta og leggja okkur fram um að skilja ólík sjónarmið, ólíka lífsreynslu og sýn?

Sannleikurinn er sá að það að velja að hlusta, að einsetja sér að reyna að skilja hvaðan aðrir koma, krefst kjarks og reynir meira á okkur til skemmri tíma en að loka og fara í vörn. Höfum við kjarkinn sem þarf til að velja mennsku og frið í eigin ranni og mynda þannig jarðveg fyrir samfélag þar sem flestum er fært að blómstra á sínum forsendum? Ég vil að við stefnum þangað. Virkjum getu okkar til að skapa slíkt samfélag, saman, fyrir og með næstu kynslóð. Ég veit að við getum það!“

Lokaorð forseta að þessu sinni voru ljóðið Leitum eftir Hólmfríði Sigurðardóttur.

Leitum úrræða
látum hendur og orð
fallast í faðma

leitum gleðinnar
í ljóðinu
finnum frelsið
í höndunum
leitum regnbogans
finnum ljósberann

leitum láns
finnum það leika um líf
lands vatns og ljóss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert