„Smá, en kná og kjarkmikil þjóð“

Halla Tómasdóttir, nýr forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir, nýr forseti Íslands. mbl.is/Eyþór

Halla Tóm­as­dótt­ir tók við embætti for­seta Íslands nú fyr­ir skömmu. Í ræðu sinni við inn­setn­ing­ar­at­höfn­ina í Alþing­is­hús­inu lagði Halla áherslu á ís­lensk af­rek, ís­lensk­an þjóðar­arf og hvert þjóðin gæti stefnt í hörðum heimi í þágu næstu kyn­slóða.

Halla kvaðst þakk­lát fyr­ir þann stuðning sem hún hef­ur fundið frá þjóðinni, þakk­lát fyr­ir stuðning for­eldra sinna, þakk­lát fyr­ir að hafa fæðst hér á landi og þakk­lát fyr­ir seiglu og vinnu fyrri kyn­slóða. Þá þakkaði hún fyrri for­set­um lýðveld­is­ins og minn­ist þeirra sem liðnir eru.

„Nú þegar ég vinn dreng­skap­ar­heit að ís­lensku stjórn­ar­skránni eru aðeins átta­tíu ár liðin frá stofn­un lýðveld­is­ins. Átta­tíu ár eru um það bil einn manns­ald­ur. Hvað hef­ur áunn­ist á þess­um tíma? Höf­um við gengið til góðs, göt­una fram eft­ir veg?

Íslend­ing­ar eru þre­falt fleiri nú en þá, og all­ar aðstæður eru gjör­breytt­ar: Mennt­un, efna­hag­ur, heil­brigðisþjón­usta, sam­göng­ur, sam­setn­ing þjóðar, at­vinnu­lífið, þjóðar­tekj­ur. Við, sem vor­um ein fá­tæk­asta þjóð Norður-Evr­ópu erum nú meðal rík­ustu þjóða heims. Það hef­ur orðið um­bylt­ing á ein­ung­is átta­tíu árum – og því er vert að spyrja á þess­um tíma­mót­um, hvert vilj­um við stefna, já og hvar vilj­um við vera stödd, bæði í ná­inni framtíð en jafn­vel líka að átta­tíu árum liðnum?

Það kom vel í ljós á ferðum okk­ar hjóna um landið í vor hversu annt Íslend­ing­um er um landið sitt og tungu­mál og hversu stolt við erum af af­rek­um okk­ar og þjóðar­arfi,“ sagði Halla.

Halla og eiginmaður hennar Björn Skúlason.
Halla og eig­inmaður henn­ar Björn Skúla­son. mbl.is/​Eyþór

Mis­tök­in okk­ur dýr­mæt

Hún fagnaði þeirri miklu ný­sköp­un sem hef­ur fengið að vaxa og dafna hér á landi.

„Við eig­um að halda áfram að byggja á styrk­leik­um okk­ar, virkja sköp­un­ar­gáf­una og vanda til verka. Við eig­um óhrædd að hvetja kapps­fullt hæfi­leika­fólk til dáða og ekki gera lítið úr dýr­mæt­um skóla mistak­anna. Sár reynsla get­ur og hef­ur styrkt okk­ur.“

Þá lagði hún áherslu á mik­il­vægi lista og íþrótta fyr­ir ís­lensku þjóðina, sendi kveðjur til kepp­enda Íslands á Ólymp­íu­leik­un­um í Par­ís og sagðist hlakka til að vera viðstödd á Ólymp­íu­leik­um fatlaðra nú síðar í mánuðinum. Hún sagði mörgu að fagna en um leið ættu mann­rétt­indi und­ir högg að sækja víða um heim og traust milli fólks fari minnk­andi.

„Um all­an hinn vest­ræna heim hafa yf­ir­völd, fjár­mála­stofn­an­ir, fyr­ir­tæki, fjöl­miðlar og stjórn­kerfi misst til­trú al­menn­ings. Þótt flest sinni störf­um sín­um af heil­ind­um, þá hafa þau, sem ekki reyn­ast trausts­ins verð, valdið skaða.“

Guðni Th. Jóhannesson og fleiri fyrrverandi forsetar fjölmenntu.
Guðni Th. Jó­hann­es­son og fleiri fyrr­ver­andi for­set­ar fjöl­menntu. mbl.is/​Eyþór

Mik­il­vægt að ákveða hver við vilj­um vera

Reynsla og rann­sókn­ir sýni að minna traust valdi sinnu­leysi meðal­kjós­enda. Fólki, og þá sér­stak­lega ungu fólki, finn­ist ekki taka því að kjósa, upp­lifi að það breyti engu. Það finni jafn­vel ekki til­gang í því að taka þátt í sam­fé­lag­inu. Sí­fellt fleiri heill­ast af mál­flutn­ingi þeirra sem bjóða ein­fald­ar og oft öfga­kennd­ar lausn­ir.

„Við meg­um ekki sýna and­vara­leysi í þess­um efn­um og nú bæt­ist það við að tækn­in ger­ir kleift að falsa bæði hljóð og mynd – svo nær ómögu­legt verður að greina sann­ar frétt­ir frá fölsuðum. Hverju og hverj­um er þá óhætt að trúa? Hvað verður um traustið?  Tækniþró­un­in verður ekki stöðvuð en granda­leysi á þessu sviði get­ur haft al­var­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir sam­fé­lög og þróun lýðræðis,“ sagði Halla.

Hún lýsti einnig áhyggj­um sín­um af and­legri og sam­fé­lags­legri heilsu Íslend­inga og sagðist vilja leggja sitt af mörk­um til þess að ráðast að rót vand­ans í sam­starfi við fag­fólk.
Einnig væri mik­il­vægt að miðla kunn­áttu á milli kyn­slóða og að ungt fólk fái sæti við borðið.

„Á svona tím­um er nauðsyn­legt að staldra við og íhuga hver við vilj­um vera, hvert við vilj­um stefna og hvernig við get­um styrkt traust milli manna. Hvert vilj­um við beina ís­lenska lýðveld­inu næstu 80 árin? Við þurf­um að átta okk­ur á því og stilla okk­ur af. Því hvert stefn­ir þjóðarskúta með illa stillt­an átta­vita og veik­an sam­fé­lags­sátt­mála? “

Halla og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Halla og Birg­ir Ármanns­son, for­seti Alþing­is. mbl.is/​Eyþór

Mik­il­vægt að tala sam­an og hlusta á reynslu og sjón­ar­mið

„Í mín­um störf­um hef ég farið fyr­ir nýrri nálg­un að úr­lausn áskor­ana og dregið af því lær­dóm. Reynsl­an hef­ur kennt mér að far­sæl­ast er að kalla ólíka sam­an, spyrja spurn­inga og hlusta á fjöl­breytt sjón­ar­mið. Fá fólk til að greina og skilja vand­ann og sókn­ar­fær­in – og sníða lausn­ir sam­eig­in­lega.

Þegar traust er lítið þurfa stjórn­völd, at­vinnu­lífið og sam­fé­lagið allt að koma sam­an með nýj­um hætti, vinna sam­an að framtíðar­sýn á sam­eig­in­leg­um grunni þjóðar­inn­ar. Það er meira fram­boð en eft­ir­spurn eft­ir þeim sem þykj­ast eiga öll svör, en þjóðin sjálf, ekki síst unga kyn­slóðin, sætt­ir sig ekki leng­ur við að fá ekki að svara til um sína framtíð.“

For­set­inn spurði hvort að ís­lenskt sam­fé­lag hefði hug­rekki til þess að fara nýj­ar leiðir, til þess að tala sam­an, velja mýkt­ina og vinna þvert á kyn­slóðir og skoðanir. Svör okk­ar ákveði hvernig framtíð næstu kyn­slóða verði. Hún sagðist hafa trú á því að þjóðin finni svör­in við nauðsyn­leg­um spurn­ing­um og tak­ist á við áskor­an­ir með ís­lenska seiglu að vopni. Svör­in finn­ist í sam­töl­un­um.

Styrk­ur­inn fel­ist í smæðinni og mýkt­inni

„Ég er sann­færð um að Ísland og Íslend­ing­ar hafa mik­il­vægu hlut­verki að gegna í heimi í vanda. Ég hef trú á styrk­leik­um okk­ar og veit að við get­um áfram byggt á þeirri sér­stöðu sem við höf­um þegar skapað okk­ur á sviði jafn­rétt­is og jarðvarma, í list­um, íþrótt­um og í lýðræðis­legri þróun sam­fé­lags sem set­ur mann­rétt­indi á odd­inn. Ég tel styrk okk­ar ekki síst fel­ast í smæðinni og – í mýkt­inni.

Smá, en kná og kjark­mik­il þjóð sem hef­ur visku og metnað til að velja mýkri leiðir í hörðum heimi. Ég trúi því að við get­um valið að vera friðsæl þjóð sem nýt­ur vel­sæld­ar og rétt­ir jafn­framt hlýja hönd til þeirra sem á þurfa að halda. Þannig get­um við verið öðrum góð fyr­ir­mynd og ljós í því myrkri sem víða rík­ir.   

Kæru land­ar, það val byrj­ar hjá hverj­um og ein­um. Hver ætl­um við að vera og hvað velj­um við að gera á tím­um þegar svo marg­ir velja átök og árás­ir á þá sem ekki eru þeim sam­mála? Mæt­um við hvert öðru með opn­um hug og hjarta, til­bú­in til að hlusta og leggja okk­ur fram um að skilja ólík sjón­ar­mið, ólíka lífs­reynslu og sýn?

Sann­leik­ur­inn er sá að það að velja að hlusta, að ein­setja sér að reyna að skilja hvaðan aðrir koma, krefst kjarks og reyn­ir meira á okk­ur til skemmri tíma en að loka og fara í vörn. Höf­um við kjarkinn sem þarf til að velja mennsku og frið í eig­in ranni og mynda þannig jarðveg fyr­ir sam­fé­lag þar sem flest­um er fært að blómstra á sín­um for­send­um? Ég vil að við stefn­um þangað. Virkj­um getu okk­ar til að skapa slíkt sam­fé­lag, sam­an, fyr­ir og með næstu kyn­slóð. Ég veit að við get­um það!“

Loka­orð for­seta að þessu sinni voru ljóðið Leit­um eft­ir Hólm­fríði Sig­urðardótt­ur.

Leit­um úrræða
lát­um hend­ur og orð
fall­ast í faðma

leit­um gleðinn­ar
í ljóðinu
finn­um frelsið
í hönd­un­um
leit­um regn­bog­ans
finn­um ljós­ber­ann

leit­um láns
finn­um það leika um líf
lands vatns og ljóss.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert