Björgunarsveitir á Blönduósi og Hvammstanga voru boðaðar út fyrr í dag vegna ferðamanns sem hafði slasast efst á Borgarvirki.
Flytja þurfti ferðamanninn í sjúkrabörum niður af klettaborginni, að því er fram kemur í tilkynningu frá slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Sjúkraflutningamenn fóru á vettvang. Þegar útkallið barst þótti einnig ástæða til að senda björgunarsveitir í forgangsakstri á staðinn.
„Þegar björgunarfólk var komið á staðinn varð ljóst að betur hafði farið en leit út um tíma,“ segir í tilkynningunni.
Þá hafi verið búið um hinn slasaða í sjúkrabörum og hann borinn niður klettaborgina að göngustíg og tröppum síðasta spöl og í sjúkrabíl sem flutti ferðamanninn til aðhlynningar á næstu heilsugæslustöð.