„Takk, Halla forseti, fyrir að segja þjóðarmorð“

Sjá mátti nokkur skilti á lofti á Austurvelli fyrr í …
Sjá mátti nokkur skilti á lofti á Austurvelli fyrr í dag. Samsett mynd/Agnar

Sumir nýttu tækifærði á innsetningarathöfn Höllu Tómasdóttur forseta í dag til þess að vekja athygli hinum ýmsu málefnum. Einhverjir minntu viðstadda á stríðið á Gasaströndinni á meðan aðrir báðu Höllu um að lögfesta nýju stjórnarskrána svokölluðu.

Á meðal þess fólks sem kom saman á Austurvelli sást til Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur og Elís Önundarsonar framarlega þar sem þau héldu á tveimur pappaskiltum til að þakka Höllu fyrir orðræðu sína um stríðið á Gasaströndinni.

„Takk, Halla forseti, fyrir að segja þjóðarmorð,“ stóð á öðru skiltinu en nýr forseti sagði opinberlega í kosningabaráttu sinni að hún teldi Ísraelsher fremja þjóðarmorð á Gasa.

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Elí Önundarsonar héldur uppi skiltum bæði …
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Elí Önundarsonar héldur uppi skiltum bæði Höllu og Palestínu til stuðnings. mbl.is/Agnar

Mikilvægt að forseti kalli „þjóðarmorðið í Palestínu“ sínu rétta nafni

Salvör og Elí, sem eru stuðningsmenn Palestínu, ræða við blaðamann mbl.is. Þau segjast vona að þessi orðræða Höllu haldi áfram nú þegar hún er tekin við embætti, enda talaði hún mikið fyrir friði í sinni kosningabaráttu. 

Var þetta mikilvægur þáttur í því hvern þið kusuð?

Þetta var eitt af stærstu faktorunum hjá mér að ákveða hver verður forseti, að forseti Íslands skyldi kalla þjóðarmorðið í Palestínu sínu rétta nafni,“ segir Salvör, sem kaus Höllu.

Elí gefur reyndar ekki upp hvern hann kaus en fagnar orðræðu Höllu. Honum þykir málstaðurinn mikilvægur en kærir sig í raun lítið um kosningar.

„Ég hef ekki gaman af kosningum almennt en mér finnst skipta máli að Halla standi svona skýrt með Palestínu. Mér finnst hún taka skýra afstöðu,“ svarar hann og bætir við:

„Og ég vona að það haldi áfram.“

„Takk, Halla forseti, fyrir að segja þjóðarmorð,“ stóð á einu …
„Takk, Halla forseti, fyrir að segja þjóðarmorð,“ stóð á einu skiltinu. mbl.is/Agnar

„Spennt og vongóð“

Salvör nefnir þá að Halla hafi talað mikið um frið í sinni baráttu.

„Hún talaði um að hún ætlaði að beita sér sem forseti fyrir friði og núna er það náttúrulega þannig að mannfallið á Gasa er orðið svo gríðarlegt og allir alþjóðadómstólar sammála um að um þjóðarmorð sé að ræða,“ saegir Salvör Gullbrá.

„Þannig að ég er spennt og vongóð hvernig hún ætlar að beita sér áfram í þá átt. Þess vegna ákváðum við að koma og fagna henni og hvetja hana til góðra verka.“

Talið er að um 40 þúsund manns hafi farist í árásum Ísraelshers á Gasaströndinni frá 7. október, en þann dag drápu hryðjuverkamenn Hamas um 1.200 manns og tóku 250 í gíslingu.

„Kæra Halla, gefðu okkur nýju stjórnarskrána“

Málefni Palestínu var ekki það eina sem viðstaddir vöktu athygli á. Við höggmynd Jóns Sigurðssonar sjálfstæðishetju hafði einhver skilið eftir nokkur skilti sem á stóð: „Kæra Halla, gefðu okkur nýju stjórnarskrána.“

Þá sást til eins manns halda slíku skilti á lofti en blaðamaður náði ekki tali af honum.

„Kæra Halla, gefðu okkur nýju stjórnarskrána,“ stóð á nokkrum skiltum …
„Kæra Halla, gefðu okkur nýju stjórnarskrána,“ stóð á nokkrum skiltum við höggmynd af Jóni Sigurðssyni. mbl.is/Agnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert