Auður Ína og Tómas Bjartur, börn Höllu Tómasdóttur sem tekur við embætti forseta í dag, eru spennt fyrir deginum og vona að móðir þeirra geti verið fyrirmynd annarra þjóða.
„Þetta er bara mjög spennandi, þetta er súrealískt ef það má sletta,“ segir Tómas spurður hvernig dagurinn leggist í hann.
Auður tekur undir: „Já, við erum bara mjög spennt að vera saman í dag og fagna.“
Spurð hvort förinni sé heitið beint á Bessastaði eftir hátíðarhöldin í þinghúsinu útskýra þau að það verði haldin veisla þar í kvöld til að fagna áfanganum en að vegna viðgerða muni foreldrar þeirra ekki flytja þangað inn fyrr en í haust.
Þá verða bæði Auður og Tómas farin til Bandaríkjanna þar sem þau stunda nám.
Spurð hvort bandarískum skólafélögum þeirra finnist ekki merkilegt að mamma þeirra sé að verða forseti segja þau svo vera.
„Þjálfarinn minn í fótboltanum hringdi og spurði hvort það þurfi einhverja öryggisverði eða eitthvað. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að þetta sé svolítið öðruvísi, að þetta séu 300.000 manns. Lítið land. En þetta er svolítið stórt fyrir þeim þarna úti,“ segir Tómas.
„Þeim finnst ótrúlega merkilegt að í fyrsta lagi við séum með kvenforseta og í öðru lagi að þetta sé mamma okkar. Þau eru bara jafn spennt og ég held ég,“ segir Auður.
Mörgum Bandaríkjamönnum finnst merkilegt hve sjálfsagt það er að kona taki við embætti forseta hér en Tómas vonar að það hafi jákvæð áhrif: „Vonandi sýnir þetta bara öðrum löndum að þetta er hægt og hvað þetta er geggjað.“