Ungir piltar mættu spariklæddir fyrir stemninguna

Sveinn Marinó Brynjólfsson, Þór Ármannsson og Vilhjálmur Ingasson.
Sveinn Marinó Brynjólfsson, Þór Ármannsson og Vilhjálmur Ingasson. mbl.is/Agnar Már

Þrír drengir á menntaskólaaldri mættu spariklæddir á Austurvöll í dag til að fylgjast með Höllu Tómasdóttir taka við embætti forseta Íslands. Ekki vildu þeir missa af þessari merku stund þó þeir taki reyndar ekkert sérstaka afstöðu til nýs forseta enda ekki með kosningarétt.

Heita þeir Sveinn Marinó Brynjólfsson, Þór Ármannsson og Vilhjálmur Ingvarsson og eru þeir á aldrinum 16-17 ára. 

„Við vildum bara sjá þetta,“ segir Þór, 16 ára gamall nemandi í Verslunarskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Á þriðja hundrað manns mætti á Austurvöll í dag til að fylgjast með innsetningarathöfninni og piltarnir þrír voru allir sammála um það að þetta væri stór dagur í sögu Íslendinga og segjast allir hafa viljað sjá þetta. 

Var hlynntari Katrínu, en tekur Höllu í sátt

Eru þið stuðningsmenn Höllu?

„Ég var eiginlega hlynntari Katrínu ef ég á að vera hreinskilinn, en ég er bara sáttur,“ svarar hinn 16 ára Vilhjálmur, sem er einnig nemandi í Verslunarskólanum eins og Þór.

Þór segir að hann sé ekki alveg viss hvort hann sé stuðningsmaður hennar Höllu. „Við náttúrulega höfum ekki kosningarrétt við erum bara 16 og 17 ára,“ bendir hann á.

„Ég er ekki alveg viss hvern ég hefði kosið ef ég hefði fengið að kjósa,“ segir hinn 17 ára Sveinn, sem er úr Menntaskólanum í Reykjavík.

Vilhjálmur tekur undir orð vinar síns og segir að hann hafi ekki búin að kynna sér þetta nægilega vel enda ekki með kosningarétt, sem fyrr segir. 

„Þetta er samt merkur dagur,“ bætir Vilhjálmur við og bendir á að það er ekki á hverjum degi sem nýr forseti tekur við.

Eruð þið sum sé hér bara upp á stemninguna?

„Já,“ svara þeir allir í kór og Vilhjálmur bætir við: „Og upplifunina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert