Útlit fyrir „austan hvassviðri“ í Eyjum

Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 10 laugardagsmorgun.
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 10 laugardagsmorgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Nokkuð myndarleg lægð er suðvestur af landinu og munu skil hennar þokast norður land í dag, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Spáð er rigningu norðanlands, en að dragi úr vætu sunnan heiða. Þar verði stöku skúrir síðdegis.

Norðvestan til á landinu verði norðaustan kaldi eða stinningskaldi en annars hægari vindur. Hiti á bilinu 8 til 16 stig.

Lægðin verður sunnan við land á morgun og gengur í stífa austan- og norðaustanátt.

„Á Suðaustur- og Austurlandi er spáð nokkuð samfelldri rigningu, en dálítilli vætu fyrir norðan og vestan. Síðdegis rignir um tíma í flestum landshlutum og austast á landinu má búast við talsverðri úrkomu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Dregur úr vindi þegar líður á laugardag

Þar segir að annað kvöld dragi úr vætu víðast hvar, en þá fari að bæta í vind syðst á landinu. Um nóttina og fyrri part laugardags sé útlit fyrir austan hvassviðri, þar á meðal í Vestmannaeyjum.

„Þegar líður á laugardaginn dregur úr vindi, dálítil væta með köflum víða um land, en lengst af þurrt og sæmilega hlýtt á vesturhluta landsins og í innsveitum á Norðurlandi.“

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert