Eðlilegt að skoða hvaða valkostir eru í stöðunni

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Bændur í Álftaveri vildu að það yrði gert eitthvað en ég veit að Vegagerðin og fleiri, það vafðist fyrir mönnum hversu feikimikil vinna og mikið mannvirki þetta væri,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Mikið hefur verið fjallað um jökulhlaupið sem átti sér stað í Mýrdalsjökli síðasta laugardag. Samtöl mbl.is við bændur á svæðinu hafa leitt í ljós að hlaupið fylgdi farvegi Leirár sem myndaðist fyrir mörgum árum. Hefur verið greint frá að heimamenn hafi varað við hinum nýja farvegi og viljað framkvæmdir til að koma Leirá á sína gömlu leið.

Atburðarás sem hófst 1995

Magnús Tumi var einn þeirra sem skoðaði ána á sínum tíma og útskýrir í samtali við mbl.is hvernig atburðarrásin hófst sem síðar varð til þess að jökulhlaupið rann yfir lönd Álftavers síðasta laugardag og skapaði mikið tjón. 

„Ég fór þarna í lok ágúst 2009 inn að Leirá og sá þá hún var farin að greinast og að vatn var byrjað að renna í áttina að Skálm. Síðan er Leirá að fullu komin í Skálmina árið 2012 og engar efasemdir um það.“

Segir Magnús að hlaup sem höfðu komið úr jöklinum á árunum 1995 og fram yfir árið 2000 höfðu þau áhrif að örkeila byggðist upp sem var 7-8 metra þykk. Var það uppbygging örkeilunnar sem breytti farvegi Leirár og beindi henni niður í Skálm.

„Svo byrjaði þetta að breytast 2012 eða svo og þá byrjaði Leiráin að grafa sig niður í þessa örkeilu og hún var búinn að grafa sig 2-3 metra niður í hana 2013 og skömmu síðar voru þetta orðnir nokkrir metrar til viðbótar,“ segir Magnús og bætir við.

„Þannig ef að það ætti að búa til garð, sem að er ekkert útilokað, þá þyrfti hann að vera nokkrir kílómetrar á lengd og marga metra hár sem er feikimikið mannvirki.“

Vert sé að skoða valkosti

Spurður hvort vert sé að skoða framkvæmdir í ánni núna í dag til að forðast frekara tjón ef jökulhlaup myndi hefjast aftur og renna eftir sama farvegi segir Magnús að eðlilegt sé að skoða það.

„Það er ómögulegt að segja til um hvort þetta gerist aftur og það er bara eðlilegt mál að valkostirnir séu skoðaðir. Það er bara eðlilegur hlutur að það sé skoðað hvaða valkostir eru í stöðunni og hvað sé hægt að gera til að minnka áhrif af svona atburðum og verja vegi og byggðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert