Einu skrefi nær kvikuhlaupi eða gosi

Það gæti eitthvað gerst eftir um 7-10 daga að sögn …
Það gæti eitthvað gerst eftir um 7-10 daga að sögn Benedikts. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísbendingar eru um að næstu umbrot á svæðinu við Sundhnúkagíga séu skammt undan. Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálftavirkni mikla og hægt vaxandi ef samanburður sé gerður milli vikna.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta heldur allt áfram með svipuðum hraða. Það er að hægja á landrisinu og þótt skjálftavirkni hafi mælst minni fyrr í vikunni getur það bæði tengst veðri og því að skjálftar geti verið lotubundnir, þetta er ekki stöðug skjálftavirkni heldur kemur þetta svona í smá hviðum.“

Að sögn Benedikts gætum við verið að horfa á eitthvað gerast á svæðinu eftir um viku til 10 daga, „en væri ekki týpískt að næsti atburður yrði bara núna um verslunarmannahelgina?“ spyr hann sposkur.

Maður í manns stað

Sigurður Bergmann, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir lögregluna verða með svipaðan viðbúnað og síðustu helgar þótt stærsta ferðahelgi ársins sé fram undan.

Segist hann þá vita að slökkviliðið í Grindavík hafi bætt í mannskap með daglega viðveru og eigi eflaust eftir að bæta enn frekar í.

Þá segist hann einnig vita að 15-20 slökkviliðsmenn vinni að undirbúningi hraunkælingar, flestir frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Sigurður segir að þótt einhverjir fari í sumarfrí eða helgarleyfi komi alltaf aðrir í staðinn.

Virkandi varnir til staðar

Varnagarðurinn sem ber heitið L1 við Svartsengi hefur verið hækkaður um 4-9,5 metra. Hörn Hrafnsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís, segir hann hafa verið hækkaðan í tvígang og hann sé í dag á bilinu 10-21 metri.

Vinna sé þá hafin við að hækka garðinn sem ber heitið L6, sem er uppi á hæðinni austan við Svartsengi. Þeirri vinnu sé ekki lokið en hún er langt komin að sögn Harnar.

Á hún von á að vinnu við hækkun garðsins verði lokið seinni hluta ágústmánaðar. Hörn segir að nú séu til staðar virkandi varnir fyrir fyrsta fasa væntanlegs goss ef það kemur upp á svipuðum slóðum og áður. Hækkun á L6 snýst um að byggja upp varnir fyrir enn verra tilfelli en búist er við að geti orðið.

Umfangsmeiri hraunkæling

Tilraunir hafa verið gerðar með hraunkælingu á seinni stigum goss og segir Hörn að í undirbúningi sé umfangsmeiri hraunkæling.

Vatn verði sótt á Svartsengissvæðið og lagt í lögnum á staði á svæðinu sem líklegir eru til þess að henta hvað best fyrir hraunkælingu.

Karen Ósk Lárusdóttur, fagstjóri aðgerðamála hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir búið að gera ýmsar áætlanir til að nálgast vatn til notkunar.

Notast verði við bæði affallsvatn og kælivatn frá virkjuninni í Svartsengi og þá verði tengimöguleikar inn á kaldavatnslögn Grindavíkur án þess að komi til skerðinga til íbúa. Einnig verði tengimöguleikar við gamla heitavatnslögn og tankur nýttur sem forðabúr.

Fjölmargir hafa komið að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins að sögn Karenar. Hönnun var unnin af hönnuðum varnargarðanna og öðrum sérfræðingum, 30 manns frá slökkviliðunum á suður- og suðvesturhorni landsins munu vinna að verkefninu og búnaður fenginn að utan. Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að afkasta um 30 til 40 þúsund lítrum á mínútu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert