Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fagnar nú 150 ára afmæli sínu, og hefur verið vel mætt í brekkuna í Herjólfsdal á fyrsta degi hátíðarinnar.
Jóhanna Guðrún steig á svið fyrr í kvöld ásamt Fjallabræðrum til þess að frumflytja þjóðhátíðarlagið, Töfrar, en það er samið af Halldóri Gunnari Pálssyni, gítarleikara Fjallabræðra, og Klöru Elíasdóttur.
Var gerður góður rómur að flutningi Jóhönnu Guðrúnar og Fjallabræðra, og má eiga von á því að lagið muni óma oft um Vestmannaeyjar um helgina.
Hefð er fyrir því að allir höfundar og flytjendur þjóðhátíðarlagsins fái uppstoppaðan lunda í heiðursskyni fyrir, en á meðfylgjandi mynd má sjá Jóhönnu Guðrúnu þegar hún fékk sinn lunda.