Fundu byssur, hnífa, sverð og axir á heimili sakbornings

Höfuðpaurinn er talinn vera karlmaður á fimmtugsaldri.
Höfuðpaurinn er talinn vera karlmaður á fimmtugsaldri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan lagði hald á fimm kíló af fíkniefnum og 37 milljónir króna í tengslum við rannsókn á stórum glæpahóp á Íslandi. Einnig lagði hún hald á verulegt magn vopna, m.a. hin ýmsu skotvopn, sverð, fimm axir og fjölda stunguvopna.

Þann 5. júlí voru átján Íslendingar, þrettán karlmenn og fimm konur á aldursbilinu 28-71 árs, ákærðir í máli sem teng­ist glæpahópi sem er grunaður um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna.

Málið er ýmist kennt við potta, þar sem fíkniefni fundust falin í pottum, eða Sólheimajökul, þar sem spjallhópur nokkurra sakborninga er sagður heita í höfuð á jöklinum.

Samkvæmt ákæru sem mbl.is hefur undir höndunum eru níu sakborningar ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot sem þau eru sögð hafa sammælst um að fremja á árinu 2023 fram til 11. apríl 2024.

Maður á fertugsaldri er einnig grunaður um tilraun til manndráps. Elstu sakborningarnir eru 63 ára kona og 71 árs karlmaður sem bæði eru foreldrar annarra sakborninga.

„Höfuðpaurinn“ rak starfsemina eins og fyrirtæki

Lögreglan telur sig hafa höfuðpaurinn í haldi, 47 ára karlmann sem er búsettur í Breiðholti. Hún segir hann hafa rekið starfsemina eins og fyr­ir­tæki.

Starf­sem­inni var að miklu leyti stjórnað í spjallhóp á sam­skipta­for­rit­inu Signal. Þar bar fólk dulnefni til að hylja raunveruleg nöfn sín.

Samkvæmt heimildum mbl.is er höfuðpaurinn sagður hafa ráðið til sín og rekið fólk líkt og um hefðbundna fyr­irtækjastarfsemi væri að ræða og að fólk í starfseminni þegið mánaðarleg laun og notið réttinda sem líkja má við sumarleyfi og jafn­vel veikindaleyfi, ef svo bar und­ir.

37 kúlur, 5 kíló af fíkniefnum og fáránlega mörg vopn

Lögreglan lagði hald á rúmlega 33 milljónir króna í reiðufé í málinu en einnig 26 þúsund evrur (4 m.kr.), 80 Bandaríkjadali (11 þús kr.), 20 pólsk sloty (700 kr.), 100 tyrkneskar lýrur (415 kr.) sem fundust á heimilum eða í bifreiðum sakborninga. Þá var einnig lagt hald á peningavélar.

Lögregla lagði þá alls hald á 4,3 kíló af kókaíni, 1,5 kíló af kókaíni, 9,8 grömm af ketamíni, 6,8 grömm af MDMA, tæp 48 grömm af metamfetamínkristölum auk 5,5 stykkja af MDMA.

Ein kona er einnig kærð fyrir að hafa haft 50 stk. af Rohypnol í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni en Rohypnol er oft notað sem byrlunarlyf.

Við húsleit á heimili 29 ára karlmanns í Reykjavík og við leit í bifreið hans fundust bitvopn, kasthnífur, níu stunguvopn, 5 axir, sverð, skammbyssa með hljóðdeyfi, önnur skammbyssa, haglabyssa, 59 haglabyssuskot og 20 skot af öðru tagi.

Við húsleit á heimili 41 ára manns lagði lögregla hald á fjaðrahníf og fjögur haglaskot. Bitvopn fannst einnig á heimili 39 ára konu.

Haglabyssa, loftskammbyssa með stálkúlum, raflostbyssa, skot, hnúajárn og piparbyssa fannst við leit á heimili og í bifreið 35 ára karlmanns. Tvær raflostsbyssur fundust á heimili 36 ára manns og macebrúsi og bitvopn fundust heima í bíl eins manns.

Tilraun til manndráps: Kyrkti mann í sjö mínútur

Í þessum átján manna hóp er 35 ára karlmaður búsettur í Reykjavík sem gefin er sök um tilraun til manndráps við Bjallavað í Norðlingaholti aðfaranótt laugardagsins 11. mars 2023.

Lögregla segir hann haldið manni í kyrkingartaki í tekið hann sjö mínútur og þannig reynt að svipta hann lífi.

„Við atlöguna var [þolandi kyrkingarinnar] settur í lífshættulegt ástand sem birtist í meðvitundarskerðingu, krömpum og blóðsúrnun,“ segir í ákærunni.

Eiturlyf falin í pottum

Í gögn­um sem mbl.is hef­ur und­ir hönd­um kem­ur fram að aðdrag­and­inn að hand­tök­um í málinu megi rekja til komu skemmti­ferðaskips til Íslands þann 11. apríl 2024.

Virðist hlut­verka­skipt­ing hafa verið skýr og þegar tveir manna úr starf­sem­inni héldu til Suður-Evr­ópu í apríl síðastliðnum grunaði lög­reglu strax að til­gang­ur­inn væri að flytja inn fíkni­efni til Íslands.

Lögregla fann þar 2,1 kíló af kókaíni falin í pottum. Í tengslum við það eru fjórir karlmenn ákærðir, þar á meðal höfuðpaurinn.

Höfuðpaurinn er sagður hafa skipulagt innflutninginn en allir fjórir sakborningar sammæltust um þátttöku með því að skiptast á skilaboðum í gegnum Signal.

Í ákæru segir að skilaboðin hafi innihaldið fyrirmæli, leiðbeiningar og samtöl um hvernig koma ætti fíkniefnunum úr skipinu, hverjum ætti að afhenda þau og hvernig og hvar fjarlægja skyldi efnin úr pottunum.

Umsvifamikið peningaþvætti

Höfuðpaurinn er sakaður um að skipuleggja peningaþvætti með því að láta fjöl­nota­höldupoka með pen­ing­um ganga á milli manna.

46 ára maður búsettur í Kópavogi er ákærður fyrir að hafa móttekið 12.396.000 krónur í poka á heimili höfuðpaursins þann 18. október en féð er talið vera afrakstur eða ávinningur brotastarfseminnar.

49 ára maður úr Reykjavík tók á móti téðum fjármunum á bifreiðaverkstæði í Kópavogi og geymdi þá í bíl sínum. Sá kvaðst reyndar ekk­ert vita hvað í væri í pok­an­um þegar lögregla talaði við hann og hinn maðurinn sagðist hafa átt að flytja fjármunina á milli staða að beiðni höfuðpaursins.

Ann­ar karlmaður, 28 ára að aldri, var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli í mars 2024 á leið til Vínarborgar í Austurríki. Hafði hann um 16,1 millj­ón króna í reiðufé í far­angri en fjármunina fékk hann frá 42 ára samverkamanni sem hafði tekið á móti þeim frá öðrum manni sem einnig er ákærður.

„Í ann­arri skýrslu­töku skýrði [maður­inn sem var á leið úr landi] frá því að hann hefði fengið val, annaðhvort borgaði hann fíkni­efna­skuld upp á 900.000 krón­ur eða að hann færi með þessa peninga úr landi,“ seg­ir í úr­sk­urðinum.

Gæslu­v­arðhald yfir höðfuðpaurnum rennur út í dag 2. ág­úst 2024 en ekki liggur fyrir hvort það verði framlengt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert