Gul viðvörun: Tjöld geta fokið

Gul viðvörun tekur í gildi í nótt og í fyrramálið.
Gul viðvörun tekur í gildi í nótt og í fyrramálið. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs á Suðurlandi og Suðausturlandi. 

Á Suðurlandi tekur hún gildi klukkan 6 laugardagsmorgun en fellur úr gildi klukkan 16. Varar Veðurstofan við austan hvassviðri í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum, 15-20 m/s. Búast megi við snörpum vindhviðum.

„Tjöld geta fokið og fólk er hvatt til að huga að lausamunum. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurstofan varar við norðaustan hvassviðri vestan Öræfa og verður þar í gildi gul viðvörun frá klukkan 3 í nótt til klukkan 14 á laugardag.

Eftir hádegi dregur smám saman úr vindi á þessum slóðum, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar.

Alldjúp lægð

Þar segir að alldjúp lægð sé að hringsóla fyrir sunnan landið. Henni fylgi austan og norðaustan kaldi eða stinningskaldi með rigningu suðaustan- og austanlands.

Í öðrum landshlutum rigni einnig síðdegis og í kvöld. Hiti verði á bilinu 8 til 16 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Í kvöld dragi úr vætu en í nótt eykst vindur syðst á landinu. 

Leiðindaveður á mánudag

Vindur verður hægari í öðrum landshlutum og er spáð vætu með köflum. Yfirleitt þurrt og milt vestanlands og í innsveitum á Norðurlandi.

Á sunnudag er spáð norðaustan- og austanátt, 5-13 m/s. Því fylgi rigning suðaustan til, en aðrir landshlutar sleppi ekki alveg við vætu.

„Á mánudagsmorgun er síðan spáð leiðindaveðri, hvassri norðaustanátt með rigningu um allt land. Þeim sem eiga eitthvað undir veðri er bent á að fylgjast vel með veðurspám.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert