Hefur áhyggjur af stöðunni fyrir botni Miðjarðarhafs

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. mbl.is/Eyþór

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, segir stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs gríðarlega alvarlega enda fari hún versnandi. Hún hafi miklar áhyggjur af ástandinu.

„Það er augljós stigmögnun á svæðinu og ég hef gríðarlegar áhyggjur af stöðunni eins og hún er og hún getur breyst hratt á mjög alvarlegan hátt þar sem átökin geta orðið útbreiddari og alvarlegri. Á meðan sú stigmögnun á sér stað þá lengist í land [að koma á vopnahléi].“

Þáttur Íslands takmarkaður

Spurð með hvaða hætti Ísland geti beitt sér frekar segir ráðherrann Ísland hafa gert afstöðu sína skýra og gert ákall eftir vopnahléi. Þáttur Íslands sé að mestu í gegnum þær alþjóðastofnanir sem við séum partur af en sé annars takmarkaður.

„Hins vegar er veruleikinn sá að í svona ástandi þá eru það stærstu áhrifavaldar og leikendur sem hafa langmest um það að segja hvað raunverulega gerist og hver þróunin er,“ segir Þórdís. 

„Það þarf skýran vilja og pólitíska forystu bæði þeirra sem eru að reyna að hafa áhrif til góðs á svæðinu en líka þeirra sem eru þarna stríðandi fylkingar. Það hefur því miður ekki gengið eftir til þessa.“

Mun augljóslega ekki leiða neitt gott af sér

En nú hafa Ísraelsmenn tekið Ismail Haniyeh sem fór fyrir samninganefnd Hamas í vopnahlésviðræðunum af lífi. Er það ekki til merkis til um að það sé ekki vilji frá annarri hliðinni og þarf þá ekki að beita frekari alþjóðaþvingunum? 

„Það hefur skort á vilja stríðandi fylkinga á svæðinu hingað til og atburðir síðustu daga eru ekki til þess fallnir að ýta okkur í rétta átt. En aftur þá eru það þessir stærstu áhrifavaldar og leikendur sem hafa áhrif á það hvernig þetta fer og það er gríðarlega mikið undir. Við munum nýta þau verkfæri sem við höfum og vonum að menn sjái að þessi þróun muni augljóslega ekki leiða neitt gott af sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert