Hraun gæti flætt um sprungur til Grindavíkur

Sprunga opnaðist við Grindavík í janúar og hraun flæddi yfir …
Sprunga opnaðist við Grindavík í janúar og hraun flæddi yfir hús. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öll gögn benda til þess að næstu eldsumbrot á Reykjanesskaga séu skammt undan. Skjálftavirkni hefur farið vaxandi undanfarna daga og smám saman dregur úr aflögun við Svartsengi og nágrenni.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, telur líklegt að kvika hlaupi fram á næstu dögum.

Ólíklegt að sprunga opnist innan bæjarmarkanna

Í einni af þeirri sviðsmynd sem Veðurstofa Íslands hefur skýrt frá kemur fram að mögulegt sé að gossprunga opnist innan Grindavíkur.

Aðspurður segir Benedikt ólíklegt að sprunga opnist innan bæjarmarkanna þar sem engir gígar séu á svæðinu sem bendi til að það hafi gerst áður. Hann útilokar þá sviðsmynd þó ekki.

Hraun gæti runnið í gömlum sprungum

Benedikt telur líklegast að sprunga opnist á svipuðum slóðum og síðast, við Sundhnúkagígaröðina norðan Hagafells. Þaðan gæti hraun þó runnið suður í sprungum á nokkur hundruð metra dýpi sem opnuðust í fyrri eldsumbrotum á skaganum, og komið upp á öðrum stað.

Þannig gæti hraunið átt nokkuð greiða leið til Grindavíkur, þar sem ein sprungan liggur m.a. undir varnargörðunum, þó svo að nýjar sprungur opnist ekki sunnan við Hagafell.

Þá er heldur ekki útilokað að ný sprunga opnist innan varnargarða líkt og hefur áður gerst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert