Misstu af Herjólfi á leið á fyrstu Þjóðhátíðina

Hrafnhildur Karen Hauksdóttir og Telma Þorvaldsdóttir brostu sínu breiðasta þrátt …
Hrafnhildur Karen Hauksdóttir og Telma Þorvaldsdóttir brostu sínu breiðasta þrátt fyrir að hafa misst af ferjunni klukkan eitt. Þær brostu eflaust enn breiðar þegar þær stigu loks um borð klukkan þrjú. mbl.is/Eyþór

Vinkonurnar Hrafnhildur Karen Hauksdóttir og Telma Þorvaldsdóttir ætluðu að ná Herjólfi klukkan eitt í dag en rétt misstu af honum.

Blaðamenn mbl.is sáu þær hlaupa í átt að Herjólfi með farangurinn sinn, þegar hann sigldi af stað.

Fyrsta skiptið á Þjóðhátíð

„Ég átti nú enga von á að ná þessari ferju,“ segir Telma.

Hrafnhildur kemur frá Hveragerði en Telma alla leið frá Akureyri, hún keyrði í gær til Reykjavíkur.

Er þetta í fyrsta skiptið sem þið farið á Þjóðhátíð?

„Já, sést það ekki?“ segja þær hlæjandi.

„Við ætluðum að vera í tjaldi, en í fyrradag fengum við boð að gista í húsi og við sögðum bara já takk,“ segir Telma, fegin því að þurfa ekki að gista í tjaldi.

Hverjum eruð þið spenntastar fyrir?

„FM95BLÖ, auðvitað,“ segir Hrafnhildur og Telma tekur undir með henni „ég verð að segja það sama.“

Heimferðin verður brekka

Eruð þið spenntar fyrir heimferðinni á mánudaginn?

„Nei alls ekki, við eigum miða klukkan tíu,“ segir Hrafnhildur. „Það er svolítið snemmt, það verður brekka,“ segir Telma. 

Þið látið veðurspánna ekkert stoppa ykkur?

„Nei, þess vegna er ég komin í hús,“ segir Telma og hlær.

„Ég er að fara til útlanda“

Eruð þið búnar að ákveða hvernig fötum þið verðið í alla dagana?

„Já,“ segja þær í kór.

„Ég er með nokkrar samsetningar hérna, taskan er örugglega tíu kíló,“ segir Telma og lyftir ferðatöskunni sem hún hefur meðferðis.

„Ég er að fara til útlanda, er þetta ekki nýtt land eða,“ segir Telma og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert