Aurskriða féll á Strandaveg skammt frá Árnesi við Trékyllisvík í morgun. Reyndi ferðamaður að komast framhjá aurskriðunni en festi bíl sinn í staðinn.
Björgunarsveitin Strandasól var kölluð á staðinn og var mætt til bjargar um klukkan átta í morgun.
„Það var ferðamaður að reyna að keyra framhjá þessari skriðu í Trékyllisvík og náði að festa sig í henni. Þannig að við fórum þarna í morgun og losuðum hann úr skriðunni. Svo kom einn bóndi á dráttarvél og hreinsaði veginn þar,“ segir Davíð Már Bjarnason, björgunarsveitarmaður og sauðfjárbóndi, í samtali við mbl.is.
Hann segir bóndann jafnframt hafa dregið bílinn úr skriðunni.
Skriður og grjót hafa fallið á þremur til fjórum stöðum á svæðinu, meðal annars í Kjörvogshlíð. Davíð segir búið sé að hreinsa það að mestu.
Svo sé Vegagerðin að vinna í Veiðileysu, eins og mbl.is hefur þegar greint frá.
„Bóndinn á næsta bæ fór og mokaði skriðuna eftir að hafa dregið bílinn úr henni og svo fór annar heimamaður úr Djúpavík og hreinsaði til á Kjörvogshlíðinni þar sem höfðu fallið skriður líka,“ segir Davíð.
Steinskriða féll í morgun á Strandavegi frá Djúpavík að Gjögri. Veginum var lokað en hann síðar opnaður á ný.
Einnig fór Strandavegur næstum því í sundur frá Bjarnafirði að Djúpavík vegna bleytu og er hann enn lokaður.
Davíð hvetur fólk til þess að fylgjast vel með veðri og upplýsingum frá viðbragðsaðilum.