Nýr forseti verður á faraldsfæti í dag

Halla Tómasdóttir tók við embætti forseta Íslands í gær 1. …
Halla Tómasdóttir tók við embætti forseta Íslands í gær 1. ágúst. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og Björn Skúlason, eiginmaður forseta, munu í dag heimsækja Vestmannaeyjar og Borgarnes.

Tilefnið er unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi og þjóðhátíð i Vestmannaeyjum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

Við innsetningu forseta Íslands 1.ágúst.
Við innsetningu forseta Íslands 1.ágúst. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Þjóðhátíð í Eyjum á 150 ára afmæli

Þjóðhátíð í Eyjum fagnar 150 ára afmæli í ár. Hátíðin á rætur sínar að rekja til hátíðahalda sem efnt var til um landið allt á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar þann 2. ágúst 1874.

Frá árinu 1916 hefur hún verið haldin árlega í Vestmannaeyjum í ágústmánuði. Hefð er fyrir því að þar komi kynslóðir saman, ungir sem aldnir, og geri sér glaðan dag.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, tekur á móti forsetahjónum ásamt fulltrúum þjóðhátíðarnefndar og ÍBV og leiðir þau um hátíðarsvæðið í Herjólfsdal, að því er segir í tilkynningu.

Þar verða forsetahjónin viðstödd setningarathöfn hátíðahaldanna auk þess sem þau heimsækja hvítu tjöldin og ræða við heimamenn og aðra hátíðargesti.

Koma einnig við á Unglingalandsmóti UMFÍ

Frá Vestmannaeyjum liggur leið forsetahjóna í Borgarnes, þar sem Unglingalandsmót UMFÍ fer er haldið um verslunarmannahelgina, í samstarfi Ungmennafélags Íslands, Ungmennasambands Borgarfjarðar og sveitarfélagsins Borgarbyggðar.

Unglingalandsmótið hefur verið haldið um verslunarmannahelgi frá árinu 2002 sem vettvangur fyrir skipulagt tómstundastarf og samveru með foreldrum. 

Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, tekur á móti forsetahjónum ásamt fulltrúum UMFÍ og UMSB og fylgir þeim á setningu mótsins, sem hefst kl. 20 í kvöld með fánahyllingu.

Forseti flytur ávarp við athöfnina og hvetur þar ungmenni jafnt sem foreldra til dáða. Að lokinni opnunarathöfn er forsetahjónum boðið til móttöku í Grunnskóla Borgarness ásamt fulltrúum ungmennahreyfingarinnar.

Forsetahjónin halda aftur heim á leið í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert