Ellen Geirsdóttir Håkansson
Vegagerðin hefur opnað Strandaveg frá Djúpavík að Gjögri eftir steinskriðu morgunsins. Unnið er að því að lagfæra Strandaveg frá Bjarnarfirði að Djúpavík og er hann því enn lokaður. Vonast er til þess að hægt verði að opna veginn um kvöldmatarleytið.
Þetta segir Gunnar Númi Hjartarson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Hólmavík, í samtali við mbl.is.
Hann segir ganga betur en búist var við að fylla í þann hluta vegarins frá Bjarnarfirði að Djúpavík sem rann úr vegna bleytu.
„Það gengur ágætlega hjá þeim að fylla í gatið og það hætti að rigna, þannig að þetta gengur mun hraðar en ég hélt. En það er komin þoka þannig að maður sér ekki alveg hvort það sé að koma grjót að ofan eða ekki. Þetta kemur bara hægt og rólega," segir Gunnar.
„Ég er að vona að þetta verði komið um kvöldmat.“
Hann segir Strandaveg frá Djúpavík að Gjögri hafa sloppið við skrekkinn en hvetur fólk til þess að keyra varlega.