„Wok station“, „Asber kæliskúffuborð“ og „FriFri SuperEasy deepfryer“ er meðal þess sem sonur veitingamannsins Davíðs Viðarssonar, áður Quang Le, hefur listað til sölu á atvinnu- og sölusíðu veitingabransans á Facebook þar sem seldar eru veitingavörur.
Líklegt má telja að um sé að ræða búnað sem notaður var á veitingastöðum Wok On, en félögin Wokon ehf. og EA17, sem bæði voru í fullri eigu Quang Le, voru úrskurðuð gjaldþrota fyrr í sumar.
Skömmu eftir að félögin voru úrskurðuð gjaldþrota sagði Einar Hugi Bjarnason, skiptastjóri þrotabús Wokon ehf, að reksturinn væri til sölu. Bifreiðar, vörumerki og tæki.
„Langbest væri að geta selt þetta í einu lagi en það verður að koma í ljós hver eftirspurnin er,“ sagði Einar Hugi í samtali við mbl.is, en ekki liggur fyrir hvernig salan hefur gengið síðan þá.
Sonur Davíðs er þó ekki einungis með eldhústæki til sölu. Hann býður jafnframt upp á marga lítra af sápu, borð, stóla, hitamæla, prentara og ljósaskilti.