Hljómsveitin Færibandið spilar í fyrsta skiptið á Þjóðhátíð í ár. Þeir spila á litla sviðinu í kvöld og á sunnudag og á stóra sviðinu á laugardag.
Blaðamenn mbl.is hittu á Færibandið í Landeyjahöfn þegar þeir biðu eftir Herjólfi, allir í eins fötum og í góðu skapi.
„Það er enginn að spila jafn oft á Þjóðhátíð og við í ár,“ segir Rúnar Þór Brynjarsson, söngvari Færibandsins.
„Ég og Ágúst bróðir minn byrjuðum bandið og fundum alls konar snillinga héðan og þaðan í bandið,“ segir Rúnar, spurður hvernig hljómsveitin var stofnuð.
Þeir segja hljómsveitina vera að norðan, en meðlimirnir eru frá Húsavík, Patreksfirði og Laugum svo eitthvað sé nefnt.
Hvers konar tónlist spilið þið?
„Við erum að tala bara um það sem fólk vill heyra,“ segir Daníel Andri Eggertsson, gítarleikari Færibandsins.
Þeir segjast spila klassísk lög sem flestir þekkja en líka lög sem fólk er ekki að heyra venjulega á sveitaböllum.
„Við erum líka í 70's sleggjum eins og Stayin' Alive, þetta er mjög vítt. Ef við sjáum að salurinn er ekki alveg að taka við þessu þá skiptum við um gír,“ segir Daníel.
Eruð þið bara að fara til að spila, eða líka skemmta ykkur?
„Þetta er fyrst og fremst að spila tónlist og fókus, en svo verðum við líka að hafa smá gaman,“ segir Rúnar og hlær.
Þeir segjast fegnir því að geta gist í húsi og segja Þjóðhátíðarnefnd hafa hugsað vel um þá.