Búist er við mestu traffíkinni til Vestmannaeyja í dag, föstudag, en fjöldi Þjóðhátíðargesta var þegar kominn í Heimaey um hádegi í gær.
Nokkrir hafa verið að streyma að í vikunni en þá helst brottfluttir Eyjamenn. Þetta segir Hörður Orri Grettisson framkvæmdastjóri Herjólfs í samtali við Morgunblaðið.
Í gær og í dag eru ferðir Herjólfs úr Landeyjahöfn til Vestmannaeyja átta talsins hvorn daginn. Á morgun og sunnudag eru færri skipulagðar ferðir en þeim fjölgar aftur á mánudag, þegar þær verða ellefu.
Skipulagið er þó ekki fastmótað og býst Hörður við að það muni taka breytingum, það bætast yfirleitt alltaf við ferðir í kringum verslunarmannahelgina, sem er iðulega annasamasti tími ársins hjá fyrirtækinu.