Úrkoma aldrei mælst meiri í júlí

Sólahringsúrkoma að morgni 14. júlí mældist 227 mm sem er …
Sólahringsúrkoma að morgni 14. júlí mældist 227 mm sem er mesta úrkoma sem mæld hefur verið á einum sólarhring í júlímánuði á landsvísu. mbl.is/​Hari

Úrkoma í júlí var sú mesta sem mælst hefur á nokkrum veðurstöðvum á Vesturlandi. Það var óvenju blautt og þungbúið á suðvestan- og vestanverðu landinu, en þurrara og sólríkara á Norður- og Austurlandi.

Þetta kemur fram í stuttu yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar í júlímánuði og nánar greint frá því að umræddir staðir á Vesturlandi séu til að mynda Ásgarður, Lambavatn og Hjarðarfell. 

Mesta úrkoma sem mælst hefur á sólarhring

„Mikið vatnsveður gerði á Vesturlandi dagana 13. og 14. júlí, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Barðaströnd. Því fylgdu miklir vatnavextir og einhverjar skriður féllu á þessum svæðum,“ segir í yfirlitinu og því bætt við að úrkoma hafi mælst langmest á Grundarfirði þessa daga. 

Sólahringsúrkoma að morgni þess 14. mældist þannig 227 mm sem er mesta úrkoma sem mæld hefur verið á einum sólarhring í Grundarfirði og jafnframt mesta sólarhringsúrkoma sem mæld hefur verið í júlímánuði á landsvísu. 

Rigning 80% umfram meðalúrkomu

Einnig var mjög úrkomusamt á Tröllaskaga og í Skagafirði dagana 21. og 22. júlí, að því er fram kemur í yfirlitinu. Mest mældist úrkoman á Siglufirði og Ólafsfirði og féllu nokkrar aurskriður á svæðinu í kjölfarið. 

Mánuðurinn var jafnframt mjög úrkomusamur í Reykjavík. Úrkoman mældist 89,7 mm sem er 80% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Úrkoman í Reykjavík hefur ekki mælst meiri í júlí síðan 1984, þó júlí árið 2014 hafi verið álíka blautur og samkvæmt yfirlitinu. 

Á Akureyri mældist úrkoman 24,4 mm sem er um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 56,7 mm og 61,5 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13 sem er þremur fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri átta daga sem eru einum fleiri en í meðalári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert