Veðurstofan varar við auknum líkum á skriðuföllum

Uppsöfnuð úrkoma fram á sunnudagskvöld.
Uppsöfnuð úrkoma fram á sunnudagskvöld. Kort/Veðurstofa Íslands

Auknar líkur eru á skriðuföllum á Suðurlandi og á Ströndum yfir Verslunarmannahelgina, að því er segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.

Þar segir að myndarleg lægð sé suðvestur af landinu um þessar mundir. Skil hennar muni þokast yfir landið í dag og yfir helgina.

Mesta rigningin verði á sunnan- og suðaustanverðu landinu og einnig á Ströndum.

Skriða fór yfir veg

Síðustu nótt var mikil úrkomuákefð á Ströndum. Þar söfnuðust upp 44 mm yfir nóttina. Þá bárust fregnir af skriðu sem fór yfir veg 643 í Reykjarfirði. Vegur fór í sundur í Veiðileysufirði.

„Á Ströndum er uppsöfnuð úrkoma 129 mm fram á miðnætti á sunnudag. Við slíkar aðstæður má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum en samfara því eykst hætta á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum. Aukin skriðuhætta getur varað eftir að mesta rigning er búin. Því er ráðlagt að sýna aðgát næstu daga á þekktum skriðusvæðum,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Sterkir vindar fylgja

Mikilli uppsafnaðri úrkomu er spáð á Suður- og Suðausturlandi, um 399 mm á 66 klukkustundum á Mýrdalsjökli, yfir 400 mm á Öræfum og einnig er mikilli uppsafnaðri úrkomu spáð austan Vatnajökuls.

„Þetta úrkomumagn telst þó ekki talsvert fyrir þessi svæði. Sterkir vindar eiga að fylgja þessu veðri og því getur úrkomumagn verið mikið í hlíðum áveðurs,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert