Strandavegi hefur verið lokað sitt hvorum megin við Djúpavík, eftir að vegurinn lokaðist að norðanverðu í Reykjarfirði vegna steinskriðu og fór nær í sundur að sunnanverðu í Veiðileysu.
Talið er að hið minnsta fimmtíu manns séu því innlyksa á Djúpavík.
Yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík segir veginn við syðri enda fjarðarins nærri farinn í sundur vegna bleytu og að ekki sé ljóst hvenær hægt verði að opna norðanverðan veginn.
„Hann er lokaður að norðan vegna aurskriðu og að sunnan fór hann í sundur vegurinn, ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað það var, en það er eitthvað farið úr veginum,“ segir Eyrún Oddsdóttir á Hótel Djúpavík í samtali við mbl.is.
„Við erum í rauninni innilokuð bara, það kemst enginn til okkar eða frá okkur í hvoruga áttina en þeir eru bara byrjaðir að vinna í þessu. Við sendum mann frá okkur til þess að hjálpa til fyrir norðan.“
Hvenær er ykkur tilkynnt um að allt sé lokað?
„Það er í rauninni bara núna upp úr klukkan níu, kannski korter yfir, þegar tilkynningin kemur frá almannavörnum,“ svarar Eyrún.
„Það var enginn farinn frá okkur þannig að það var enginn sem kom að þessu okkar megin frá. Það hefur einhver ákveðið að kíkja á aðstæður. Það rigndi svo rosalega hérna í nótt og alveg frá klukkan svona tvö, þrjú í gærdag og með þessum rigningum þá er þetta alveg líklegt,“ segir Eyrún og bætir við að í Djúpavík sé fólk öllu vant.
„Já, já, og ef ekki í þessum aðstæðum þá bara í snjó.“
Hún bendir á að erfitt gæti reynst að laga veginn í bröttum hlíðum.
„En við erum mjög vön þessu, þetta gerist alveg reglulega. Veit ekki hvort þetta gerist á hverju sumri en svona allt að því allavega,“ segir Eyrún.
Hún áætlar að fleiri en 50 manns séu nú innilokuð á hótelinu og í þorpinu.
Yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Hólmavík, Gunnar Númi Hjartarson, segir að um steinskriðu hafi verið að ræða á leiðinni frá Djúpavík að Gjögri.
„Það er verktaki hjá okkur að losa steinskriðu sem snýr sem sagt að Gjögri og hinum megin, sem sagt í átt til Hólmavíkur, er vegurinn hálfpartinn farinn í sundur. Það er svo ofboðslega mikil bleyta í þessu að við vitum ekki hvort hann fari endanlega í sundur og þess vegna lokaði ég veginum,“ segir Gunnar.
„Það er búið að rigna svo óhemju, þetta heitir Veiðileysukleif þar sem þetta er og það eru verktakar að vinna í þessu núna, að færa vatnið. Þá getur þetta þornað hægt og rólega í dag og þá getum við byrjað að laga veginn og opnað hann aftur.“
Hvenær búist þið við að geta opnað til þess að hægt sé að komast inn og út úr þorpinu?
„Ég bara þori ekki alveg að svara því, því þetta snýr bara að rigningunni, ef að það styttir upp núna þá gæti það verið komið kannski um fjögurleytið, fimmleytið. En ég á ekki von á því að það stytti eitthvað upp, vonandi verður það í dag, kannski á morgun.“
Svæðið þar sem vegurinn fór nærri í sundur sé mjög hættulegt svæði.
„Ef einhver fer þarna út af þá er ég ekki alveg viss um að hann hafi það af. [...] Það er mjög þekkt að það sé grjót þarna að hrynja niður á veg og manni er í sjálfu sér nokkuð illa við að vera að vinna í þessu, það gæti komið steinn niður,“ segir Gunnar.
Uppfært: