Andlát: Haukur Halldórsson

Haukur Halldórsson myndlistarmaður lést 30. júlí sl. Haukur var fæddur 4. júlí 1937 að Stóra-Ási á Seltjarnarnesi, sonur Halldórs Ástvalds Sigurbjörnssonar og Valgerðar Ragnarsdóttur. Á sínum yngri árum starfaði Haukur við vegagerð og til sjós. Fór svo til náms við Myndlista- og handíðaskólann í Reykjavík sem hann hvarf frá. Tók svo aftur upp þráðinn við myndlistarskóla í Kaupmannahöfn og nam þar 1959-1961.

Haukur byrjaði feril sinn sem auglýsingateiknari, en fór fljótlega út í myndlist. Í fyrstu teiknaði hann með kolum og varð þekktur fyrir teikningar sínar af tröllum. Hann hélt fjölda einkasýninga, nú síðast yfirlitssýningu í Ósló á þessu ári. Helstu viðfangsefni hans í myndlist voru norræn goðafræði, þjóðsögur og þjóðtrú. Hann vann einnig að handverki, til að mynda goðalíkneskja, við gerð skartgripa, húsgagna og líkana af mannvirkjum, má þar telja Fjörukránna í Hafnarfirði og líkanið af Edduheimum sem hann vann í Straumi í Hafnarfirði. Þar hafði hann lengi vinnustofu ásamt Sverri Erni Sigurjónssyni, en þeir stofnuðu saman Víkingahringinn. Haukur er meðal annars höfundur Heimskautsgerðisins á Raufarhöfn og styttunnar af Þór og Þrumuvagninum í Vík í Mýrdal. Haukur flutti til Berlínar árið 2013, bjó síðan í Tønder í Danmörku þar til á síðasta ári þegar hann flutti aftur til Íslands.

Haukur myndskreytti fjölda bóka og gaf út spil og leiki, hann er m.a. höfundur Útvegsspilsins sem kom út árið 1977 og var endurútgefið árið 2020. Þá teiknaði hann spáspilastokkinn Yggdrasil sem var samvinnuverkefni hans og Gunnhildar dóttur hans og kom út í Bandaríkjunum árið 2018. Hlaut verkið verðlaun fyrir listfengi og var valinn besti spáspilastokkur ársins 2020 af Tarot Foundation. Haukur vann nú síðast að hönnun skreytinga, myndverka og ljósakróna fyrir nýtt hótel í Hafnarfirði.

Haukur kvæntist Sigrúnu Kristjánsdóttur árið 1965. Þau skildu. Börn þeirra eru Kristján Már (f.1966), Hallgerður (f.1968) og Gunnhildur Walsh (f. 1972).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert