Draumastaða að sjá krakka prófa eitthvað nýtt

Unglingalandsmót UMFÍ fer nú fram um helgina í Borgarnesi.
Unglingalandsmót UMFÍ fer nú fram um helgina í Borgarnesi. Ljósmynd/Aðsend

„Það er svaka stemmning og það er ótrúlega gaman að sjá krakka keppa ekki bara í sínum íþróttagreinum heldur að prófa líka eitthvað nýtt,“ segir Silja Úlfarsdóttir, verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ, sem fer nú fram í Borgarnesi um helgina.

Silja segir í samtali mbl.is að tæplega eitt þúsund ungmenni séu nú saman komin á mótinu til að keppa í 18 íþróttagreinum.

Glampandi sól í dag

Nefnir hún að gaman sé að sjá ungmennin prófa nýjar greinar og tekur hún sem dæmi tvo stráka sem prófuðu að keppa í frjálsum íþróttum á síðasta landsmóti og hafi í kjölfarið byrjað að æfa frjálsar íþróttir hjá Silju.

„Þetta er svona draumastaðan hjá okkur að krakkar séu að prófa eitthvað nýtt og kynnast nýjum íþróttum og finna sig kannski í einhverju öðru.“

Segir Silja að eilítið stress hafi verið í mannskapnum fyrir veðrinu til að byrja með, en stressið sé með öllu móti farið núna. Ekki hafi rignt í gær og þá sé glampandi sól í Borgarnesi um þessar mundir.

„Þetta er rosalega gaman. Ég sjálf mætti á mitt fyrsta landsmót með strákana mína í fyrra og þú sérð það núna að nú er ég orðin verkefnastjóri af því að ég var mjög hrifin af þessu og mér fannst þetta svo gaman og ég ætla ekki að missa af þessu aftur,“ segir Silja um stemmninguna á mótinu.

Frá opnunarhátíð mótsins.
Frá opnunarhátíð mótsins. Ljósmynd/Aðsend

Forsetanum vel tekið

Halla Tómasdóttir, forseti þjóðarinnar, mætti á opnunarhátíð mótsins í gær og fór þar með erindi. Segir verkefnastjórinn að gaman hafi verið að sjá hvað forsetanum var tekið vel og hafi hún verið í fullri vinnu við að láta mynda sig með ungmennunum.

„Það var alveg ótrúlega gaman og hún virtist vera alveg nokkuð klökk á tímabilum því að það var svo mikill andi í hópnum og þau tóku henni svo vel og þegar þau sáu hana voru þau að vinka henni og vildu fá sjálfu og hún sagði já við alla.“

Segir Silja að allt sé því í toppmálum á Borgarnesi og bendir hún á að mótið á næsta ári verði haldið á Egilsstöðum.

„Það verður bara veisla líka þar,“ segir verkefnastjórinn að lokum. 

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, fór með erindi á opnunarhátíð mótsins.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, fór með erindi á opnunarhátíð mótsins. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert