Maður var handtekinn í Kópavogi í dag vegna tilkynningar um að hann gengi berserksgang fyrir utan slysadeild. Fannst hann á gangi eftir að hafa valdið tjóni á í það minnsta þremur bifreiðum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem gerð er grein fyrir þeim málum sem komu inn á borð lögreglu milli klukkan 5 og 17 í dag.
Ökumanni tókst að festa sig inni á lokuðu vinnusvæði en hann reyndist vera góðkunningi lögreglunnar þegar hún mætti á vettvang. Maðurinn vildi ekki gefa upp við lögreglu hvers vegna hann væri inni á vinnusvæðinu.
Fljótlega kom þó í ljós að í bifreið hans væri þýfi að finna sem hann hafði stolið af svæðinu. Þá fundust einnig fíkniefni á manninum en hann var handtekinn og vistaður vegna málsins.
Tveir aðrir ökumenn rötuðu í dagbók lögreglu en þeir voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Reyndust þeir báðir með fíkniefni á sér.
Lögreglu barst tilkynning um óvelkomna gesti í íbúðarhúsnæði. Húsráðandi hafði þá farið heim úr vinnunni og komið að íbúð sinni opinni, en búið var að róta og gramsa í búi hans. Þegar lögregla kom á vettvang voru tveir í íbúðinni og voru þeir báðir handteknir og vistaðir vegna málsins.
Lögreglu bárust tvær aðrar tilkynningar um innbrot, annars vegar í fataverslun og hins vegar í Tækniskólann. Í ljós kom að sá sem grunaður var um að brjótast inn í Tækniskólanum var nú þegar í haldi lögreglu vegna annarra mála og var í það minnsta hluti af þýfinu þegar hjá lögreglu.
Sá sem stolið hafði í versluninni komst fyrst undan en lögregluþjónar urðu hans fljótt varir og var hann handtekinn vegna málsins og það afgreitt á lögreglustöð. Er hann nú laus þaðan.