Herjólfs­höllin „al­gjör himna­sending“

Margir hafa nú komið sér fyrir í Herjólfshöllinni í Vestmannaeyjum …
Margir hafa nú komið sér fyrir í Herjólfshöllinni í Vestmannaeyjum vegna veðurs. Ljósmynd/Marta María Sæberg

„Það hafa talsvert margir leitað hingað inn, og fólk virðist alveg nýta sér þetta úrræði, enda er þetta algjör himnasending.“

Þetta segir Marta María Sæberg, í samtali við mbl.is, en hún er ein þeirra sem leitað hafa inn í íþróttahúsið í Vestmannaeyjum vegna veðurs.

Afar hvasst er í veðri og var því gripið til þess ráðs að opna íþróttahúsið sem athvarf fyrir veðurbarða þjóðhátíðargesti. 

„Mjög margir sem eru komnir hingað inn höfðu í engin önnur hús að venda og sofa því bara á dýnum á gólfinu, þar sem tjöldin þeirra eru annað hvort brotin, eða fokin eitthvað út í buskann,“ segir Marta.

Ennþá mikil stemmning 

„Fólk er búið að koma sér vel fyrir hérna og það er enn afar góð stemmning, þrátt fyrir að fólk hafi aðeins þurft að færa sig til. Höllin er ekki alveg orðin full, en hún fer samt að fyllast, en allt hefur þó verið mjög yfirvegað,“ segir Marta.

Spurð hvort að hana langi heim í ljósi veðursins, segir Marta að það langi hana ekki. 

„Það voru margir byrjaðir að leita einhverra úrræða þegar tjöldin byrjuðu að fjúka, en nú er þetta alveg búið að bjarga helginni," segir Marta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert