Konur megi bara vera reiðar á túr

„Við höfum oft í gegnum tíðina skilgreint hormóna kvenna og tíðahringinn og ýmislegt eins og þetta að sumu leyti sem óeðlilegt.“

Þetta segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Sigrún var gestur í Dagmálum nýverið ásamt Sunnevu Halldórsdóttur, meistaranema í líf- og læknavísindum, til að ræða ójöfnuð þegar kemur að heilsu í tengslum við skaðleg efni í tíðavörum. 

Rann­sókn á veg­um Berkeley-há­skóla leiddi ný­verið í ljós að 287 teg­und­ir túr­tappa frá Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um, bæði hefðbundn­ir og líf­ræn­ir, inni­héldu alla 16 þung­málma sem voru und­ir í rann­sókn­inni. Þar á meðal blý, sink, kvikasilf­ur, nikk­el og arsen.

Líkamar kvenna „frávik“ frá hinu „eðlilega“

Segir Sigrún ójöfnuð þegar kemur að heilsu víða gæta en til að mynda hafi rannsóknir að mestu snúið að karlmanns líkamanum og líkamar kvenna og hormónastarfsemi þeirra því álitin „óeðlileg“ eða „frávik“ frá hinu eðlilega. 

Að hennar mati er brýnt að fræða ungt fólk meira um hormónastarfsemi allra til að viðhorf í þeirra garð verði eðlilegri.

Hún kveðst stundum óttasleginn við umræðu um hormóna enda hafi hormónar kvenna oft verið notaðir gegn þeim í gegnum tíðina og að þær gætu jafnvel ekki sinnt ákveðnum störfum vegna áhrifa hormónastarfsemi þeirra á ákvarðanatöku og rökhugsun.

Karlmenn líka með bullandi hormóna

Hormónar kvenna séu oft álitnir óreglulegir eða út um allt, en hún bendir á að karlmenn séu með alveg jafn mikla hormónastarfsemi þó hún sé vissulega eilítið öðruvísi.

„Auðvitað eru þeir líka með bullandi hormóna sem að hafa áhrif á alls konar hluti sem þeir gera,“ segir Sigrún.

Hún bætir við að mögulega væri frekar hægt að skoða hvers vegna konur og stúlkur séu mögulega pirraðar t.d. vegna ójöfnuðar í samfélaginu og þegar kemur að ýmsum tækifærum, frekar en að kenna einungis hormónum þeirra um. 

„Svo stundum er eina lögmæta ástæðan fyrir því að þú megir vera reið sé að þú sért á túr.“

Hormónar kvenna hafa oft verið notaðir gegn þeim að sögn …
Hormónar kvenna hafa oft verið notaðir gegn þeim að sögn Sigrúnar. Ljósmynd/Unsplash
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert