Óvenjuleg hegðun Kötlu á bak við hlaupið

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Flest gögn passa illa við eldgos. Það er náttúrulega ekki hægt að útiloka það en þá passar það ekki við svona forboða annarra eldgosa þar sem er skammtíma jarðskjálftavirkni á undan, oftast í einhverja klukkutíma,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, um jökulhlaupið sem varð í Mýrdalsjökli á laugardag fyrir viku.

Í samtali við mbl.is segir Magnús Tumi hlaupið vera óvenjulegt. Jökulhlaup af þessu tagi hafi komið upp fjórum sinnum á síðustu 69 árum og sé það langt frá venjulegri hegðun. Á hverju ári komi aukið jarðhitavatn frá jöklinum sem safnast hefur fyrir og leiðir svo út í árnar.

„Þetta er bara partur af hegðun þessa svæðis. En hins vegar koma svo þessir atburðir sem hafa komið núna fjórum sinnum á síðustu 70 árum og þeir eru bara miklu, miklu stærri,“ segir Magnús.

Tals­vert tjón varð á hring­veg­in­um milli Vík­ur og Kirkju­bæj­ark­laust­urs.
Tals­vert tjón varð á hring­veg­in­um milli Vík­ur og Kirkju­bæj­ark­laust­urs. mbl.is/Hákon

En hvað veldur þá jökulhlaupinu?

„Það sem gerist er að katlarnir, það byrjar að safnast vatn undan þeim, og það eru nú aðeins mismunandi skoðanir á hvað valdi. Ein skoðun er sú að þetta séu pínulítil eldgos undir jöklinum. En það eru ýmis vandamál við þá hugmynd. Heldur sé þetta aukinn jarðhiti þar sem að vatn safnast fyrir undir jöklinum í einhvern tíma,“ segir jarðeðlisfræðingurinn og bendir á að hér heima sé alltaf fyrirboði á eldgosum í gegnum jarðskjálftahrinur.

Sé það vegna þess að Ísland er með lokuð eldfjöll. Þrýstingur myndast og bergið þarf að brotna svo að kvikan komist upp. Því fylgja jarðskjálftar og órói.

„Þetta sjáum við ekki fyrir jökulhlaup. Það vinnur gegn þeirri hugmynd að þetta sé eldgos.“

Mismunandi skoðanir á því hvað veldur hlaupinu

Hann segir að það séu þó séu mismunandi skoðanir á málinu þar sem jökulhlaupi fylgi órói sem getur líkst gosóróa.

„Hann líkist gosóróa en hann getur líka verið bara vatnið að fossa þarna niður. Það býr til óróa. Þannig það eru aðeins mismunandi skoðanir á þessu. Við getum ekki verið alveg viss um að þetta sé svona en það bendir flest til þess að mínu mati að það byrjaði að safnast þarna vatn í ekkert langan tíma og síðan hleypur það undan.“

Nefnir Magnús Tumi þó að mismunandi skoðanir séu á málinu breyti það því ekki að um mjög óvenjulegar aðstæður er að ræða.

„Það verður þarna mikil aukning og bráðnun í svolítinn tíma og hvað veldur því er ekki alveg ljóst. Þess vegna er líklegast að þetta séu jarðhitabreytingar.“

mbl.is/Hákon

Þurfi að fylgjast vel með Kötlu

Segir hann íslenska náttúru mjög sérstæða með sínum eldfjöllum með jöklum og ekki enn séu kominn mælitæki sem geti varað við hlaupi nema þá bara með örfárra stunda fyrirvara.

Magnús Tumi telur því mikilvægt að fylgjast þurfi með Kötlu og skerpa þurfi á því að fólk fari varlega á svæðinu.

Er hættan liðin hjá?

„Miðað við söguna er ólíklegt að það komi eitthvað annað í framhaldi af þessu en við munum náttúrulega bara fylgjast með því hvernig þetta þróast á næstunni upp á það hvort að það er aukinn jarðhiti þarna,“ segir Magnús Tumi og bætir við:

„Það þarf bara að vera mjög vakandi fyrir Kötlu af því að hún er svo nálægt byggð. Það verður að passa upp á að fylgjast alltaf vel með henni. Það er bara partur af því að búa á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka